Enski boltinn

Benitez: Margt fór úrskeiðis í kvöld | Redknapp hrósar Taarabt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Benitez skipti Lampard af velli í síðari hálfleik.
Benitez skipti Lampard af velli í síðari hálfleik. Nordicphotos/Getty
Rafael Benitez, stjóri Chelsea, var að vonum svekktur með frammistöðu sinna manna í tapinu gegn botnliði QPR á heimavelli í kvöld.

QPR hafði 1-0 sigur á Brúnni með marki Shaun Wright-Phillips en þetta var aðeins annar sigur botnliðsins á leiktíðinni.

„Það var margt sem fór úrskeiðis í kvöld. Við vissum að við ættum í höggi við neðsta lið deildarinnar og við ræddum það sérstaklega (fyrir leik)," sagði Benitez í viðtali eftir leikinn.

Benitez hvíldi Ashley Cole og Juan Mata í kvöld og fjarvera þess síðarnefnda, sem blés lífi í leik Chelsea seint í leiknum, var dýru verði keypt.

„Við vissum að við yrðum að halda einbeitingu en við höfðum ekki nægan hraða auk þess sem sumir leikmenn hafa mögulega verið þreyttir," sagði Spánverjinn.

Harry Redknapp, stjóri QPR, var skiljanlega öllu sáttari með frammistöðu sinna manna.

„Leikmenn mínir lögðu allt í sölurnar í kvöld og þú uppskerð þegar þú gerir það," sagði Redknapp sem hrósaði sérstaklega Adel Taarabt sem var einn í framlínu gestanna í kvöld.

„Ég ræddi við hann einslega í gær og sagði honum að hann yrði frammi. Hann átti að halda boltanum og bíða aðstoðar frá liðsfélögum sínum," sagði Redknapp og hélt áfram:

„Hann æfði það í tvo tíma á æfingu. Þetta var áhætta en þetta leit vel út. Ég veit ekki einu sinni hvort hann hafi spilað frammi áður," sagði Redknapp.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×