Enski boltinn

Úlfarnir ráku Solbakken - Björn Bergmann fær nýjan stjóra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stale Solbakken
Stale Solbakken Mynd/Nordic Photos/Getty
Norðmaðurinn Ståle Solbakken var rekinn í gærkvöldi úr stöðu knattspyrnustjóra Wolves í kjölfar þess að liðið féll út úr enska biklarnum eftir 1-0 tap á móti utandeildarliði Luton Town.

Ståle Solbakken tók við liði Úlfanna í sumar en það hefur ekkert gengið hjá liðinu að undanförnu. Wolver er aðeins búið að vinna 3 af síðustu 17 leikjum sínum og á í hættu á að dragast niður í fallbaráttuslaginn í ensku b-deildinni. Wolves er eins og er í 18. sæti í ensku b-deildinni sex stigum frá fallsæti.

Björn Bergmann Sigurðarson kom til Wolves í sumar frá Lilleström en hefur talsvert verið að glíma við meiðsli á sínu fyrsta tímbili í Englandi. Björn Bergmann var ekki með liðinu í gær en hefur skorað 3 mörk í 19 leikjum í ensku b-deildinni á þessari leiktíð.

Þetta er í annað skiptið á innan við einu ári sem Ståle Solbakken er rekinn frá félagi en þýska félagið Köln lét hann fara í apríl á síðasta ári. Solbakken náði aftur á móti mjög flottum árangri með danska liðið FC Kaupmannahöfn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×