Erlent

Blaut tuska í andlit vestrænnar þjóðar

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Marte Deborah Dalelv var dæmd í sextán mánaða fangelsi eftir að hafa leitað til lögreglu í Dúbaí vegna nauðgunar. Norsk stjórnvöld brugðust við í gær og segja dóminn vera mannréttindabrot.
Marte Deborah Dalelv var dæmd í sextán mánaða fangelsi eftir að hafa leitað til lögreglu í Dúbaí vegna nauðgunar. Norsk stjórnvöld brugðust við í gær og segja dóminn vera mannréttindabrot.
Utanríkisráðherra Noregs er æfur yfir meðferð á norsku konunnar sem var dæmd var í 16 mánaða fangelsi er hún leitaði til lögreglu eftir að hafa verið nauðgað í Dúbaí.

Utanríkisráðuneyti Noregs sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem dómur er sagður mjög þungur og ekki í samræmi við mannréttindasjónarmið.

„Úrskurður dómara í þessu máli er köld tuska í andlit vestrænnar þjóðar. Þetta stangast á við allar okkar hugmyndir um réttlæti,“ sagði Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, í samtali við NTB fréttastofuna. „Það er furðulegt að manneskja sem tilkynnir nauðgun til lögreglu sé dæmd fyrir glæpi sem í okkar heimshluta eru álitnir mannréttindabrot,“ sagði hann jafnframt.

Fréttamiðlar víðsvegar um heiminn hafa á síðustu dögum greint frá máli Marte Deborah Dalelv, sem dæmd var í 16 mánaða fangelsi er hún leitaði til lögreglu eftir að hafa verið nauðgað í Dúbaí í mars síðastliðinn.  

Lögregluþjónarnir sögðust ekki trúa henni, tóku af henni vefabréfið og vörpuðu í fangaklefa á þeim forsendum að hún hafi stundað kynmök án þess að vera gift og drukkið áfengi án heimildar.

Foreldrar konunnar hafa nú tjáð sig um málið og eru þau harmi sleginn yfir atburðunum. Stefar Toregier Furesund, faðir Marte, flaug til Dúbaí eftir að hann fékk símtal frá dóttur sinni þegar hún hafði dvalið í fjóra daga í fangelsi vegna málsins. „Hún hringdi í mig eftir þessa fjóra daga og sagði að sér hefði verið nauðgað. Ekki nóg með það heldur hafði henni verið varpað í fangelsi þar sem hún var sögð bera ábyrgð á þessum hræðilega atburði. Þetta er algjörlega fáránlegt.“ segir hann í viðtali við norska ríkisútvarpið. Dómurinn yfir Marte var samþykktur á fyrradag lítur út fyrir að hún hefji afplánun í næstu viku.

Evelyn, móðir Marte, sagðist ekki geta sofið, hún liggi andvaka á næturna og hugsi um dóttur sína í fangelsi. Hún er stödd í Noregi og sagði við norska ríkisútvarpið að hún gæti ekki hugsað sér að ferðast til Dúbaí.

Norska kirkjan í Dúbaí hefur verið fjölskyldunni innan handar í málinu. Marte hefur dvalið hjá presthjónum kirkjunnar síðustu daga og hefur kona prestsins setið við hlið Marte í yfirheyrslum, þar sem körlum og konum er bannað að sitja hlið við hlið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Marte hyggst áfrýja málinu.

The Local.no greinir frá.


Tengdar fréttir

Nauðgað í Dúbaí og dæmd í fangelsi

Norsk kona var dæmd í 16 mánaða fangelsi fyrir að stunda kynlíf utan hjónabands þegar hún leitaði til lögreglu í Dúbaí eftir að hafa verið nauðgað í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×