Erlent

Hafa vaxandi áhyggjur af heilsufari Elísabetar Bretadrottningar

Breska þjóðin hefur vaxandi áhyggjur af heilsufari Elísabetar Bretadrottningar sem glímt hefur við þrálát veikindi undanfarna 11 daga.

Elísabet Bretadrottning er orðin 86 ára gömul og hún þurfti að leggjast inn á sjúkrahús í sólarhring fyrir rúmlega viku síðan. Ekkert er vitað um veikindi Elísabetar annað en komið hefur fram í opinberri tilkynningu frá Buckinghamhöll um að drottningin þjáist af magakveisu. Breskir fjölmiðlar benda á að yfirleitt nái fólk sér af slíkri kveisu á þremur dögum eða svo.

Það sem ýtt hefur undir áhyggjur almennings er að Elísabet þurfti að boða fráveru sína við opinbera athöfn í upphafi vikunnar. Um var að ræða Dag breska samveldisins en þessi hátíðardagur hefur verið drottningunni afar kær og hún hefur ekki misst af honum síðustu 20 árin. Hún var heldur ekki með eiginmanni sínum, Philip prins, við hefðbundna guðsþjónustu á sunnudag.

Í frétt um málið í blaðinu Daily Express segir að hirðmenn drottningarinnar segi að sennilega muni drottningin ekki koma fram opinberlega það sem eftir er af þessari viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×