Enski boltinn

Cole lagði upp tvö mörk en Van Persie tryggði United jafntefli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Collins fagnar öðru marka sinna.
James Collins fagnar öðru marka sinna. Mynd/Nordic Photos/Getty
Joe Cole stimplaði sig inn í lið West Ham United með glæsibrag þegar hann lagði upp bæði mörk liðsins í 2-2 jafntefli á móti toppliði Manchester United á Upton Park í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í kvöld. Manchester United komst í 1-0 en James Collins skoraði tvö keimlík skallamörg eftir fyrirgjafir frá Joe Cole. Robin Van Persie kom síðan inn á sem varamaður og jafnaði metin og liðin mætast því aftur á Old Trafford.

Joe Cole er uppalinn hjá West Ham en var keyptur til liðsins frá Liverpool í vikunni. Hann var því að koma aftur á Upton Park eftir níu ára dvöl hjá Chelsea og Liverpool og það munaði örlitlu að stoðsendingar hans tryggðu liðinu sæti í fjórðu umferð bikarsins.

Tom Cleverley kom Manchester United í 1-0 á 23. mínútu eftir hraða sókn og sendingu frá Javier Hernandez. James Collins jafnaði metin aðeins fjórum mínútum síðar með flottum skalla eftir fyrirgjöf Joe Cole frá vinstri.

James Collins skoraði síðan aftur með skalla eftir fyrirgjöf frá Joe Cole þegar 14 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Þannig var staðan þar til í uppbótartíma leiksins.

Robin van Persie kom inn á sem varamaður á 68. mínútu og Joe Cole var farinn af velli þegar hollenski framherjinn slapp í gegn og tryggði United jafnefli og annan leik í uppbótartíma. Ryan Giggs átti þá frábæra 50 metra sendingu á Van Persie sem afgreiddi færið frábærlega en þeir komu báðir inn á sem varamenn í seinni hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×