Erlent

Enn ríkir fullkomin óvissa um afdrif gíslanna í Alsír

Enn ríkir fullkomin óvissa um afdrif margra af þeim vestrænu gíslum sem voru í haldi herskárra íslamista í Almenas gasvinnslustöðinni í Alsír þegar alsírski herinn réðist á stöðina í gærdag.

Norsk yfirvöld hafa ekki fengið neinar upplýsingar um afdrif þeirra níu Norðmanna sem voru í stöðinni fyrir utan einn sem liggur særður á sjúkrahúsi en er ekki í lífshættu. Bresk stjórnvöld hafa ekki fengið upplýsingar um bresku ríkisborgarana sem eru í haldi.

Hinsvegar tilkynntu stjórnvöld í Bandaríkjunum að fimm Bandaríkjamenn hefðu sloppið í árásinni og væru þegar komnir úr landi.

Svo virðist sem alsírski herinn hafi aðeins hluta af Almenas á sínu valdi. Margra gísla og íslamista er enn saknað. Fram hefur komið að allt að 34 gíslanna hafi fallið sem og 14 af íslamistunum.

Írinn Stephen McFaul sem var einn af gíslunum og lifði  árásina af segir að margir af gíslunum hafi farist í sprengjuregni alsírska hersins. Verið var að flytja þá í fimm bílum á milli staða í stöðinni þegar árásin hófst. Fjórir bílanna urðu fyrir sprengjum frá hernum og telur McFaul að allir gíslarnir í þeim hafi farist. Sjálfur var hann í fimmta bílnum sem slapp óskaddaður úr sprengju- og skothríðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×