Erlent

The Economist útskýrir hornin á hjálmum víkinga

Hagfræðitímaritið The Economist birti nýlega mynd af víkingi með horn á hjálmi sínum á forsíðu sinni. Í framhaldinu töldu ritstjórar tímaritis ástæðu til að útskýra þessa myndbirtingu fyrir lesendum sínum, það er hornin á hjálmi víkingsins.

Forsíðumynd The Economist var vegna mjög lofsamlegrar úttektar tímaritsins á Norðurlöndunum og efnahagslífi þeirra á tímum kreppunnar undanfarin fimm ár. Ísland var að vísu ekki með í þessari úttekt.

Margir höfðu samband við tímaritið og vildu meina að forsíðumyndin væri sögufölsun, það er að víkingarnir hefðu aldrei verið með horn á hjálmum sínum. The Economist viðurkennir að enginn af þeim hjálmum sem fundist hafa í gröfum frá víkingatímanum er með horn.

Í tímaritinu segir að horn á hjálmum víkinga koma fyrst fram á myndum frá seinnihluta 19. aldar þegar þjóðernissinnar voru áberandi í mörgum löndum víða um heiminn.

Það var svo búningahönnuður tónskáldsins Wagner, prófessorinn Carl Emil Doepler, sem kom hyrndum hjálmum víkinga endanlega á kortið. Hann hannaði slíka hjálma fyrir fyrstu uppfærsluna á Niflungahringnum í Bayreuth árið 1876. Eftir það hafa flestar myndir af víkingum í bardögum sýnt þá með horn á hjálmum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×