Erlent

Interpol handtók hátt í 200 manns í aðgerð gegn ólöglegri timbursölu

Alþjóðalögreglan Interpol hefur handtekið hátt í 200 manns í umfangsmikilli aðgerð gegn ólöglegu skógarhöggi og timbursölu í 12 ríkjum í Mið og Suður-Ameríku.

Í tilkynningu um málið frá Interpol kemur fram að aðgerð þessi hafi staðið yfir undanfarna þrjá mánuði og að í henni hafi verið lagt hald á timbur að andvirði um 8 milljóna dollara eða rúmlega milljarð króna.

Timbrið sem lagt var hald á samsvarar 2.000 vörubílahlössum af því. Fyrir utan þá handteknu tengjast um 100 einstaklingar í viðbót rannsókn málsins.

Interpol telur að ólögleg sala á timbri nemi um 100 milljörðum dollara, eða tæplega 13.000 milljörðum króna árlega á heimsvísu.

Timbursala þessi hefur þar að auki verið tengd við aukna tíðni morða, spillingar og skipulagðrar glæpastarfsemi í mörgum ríkjum í Mið og Suður-Ameríku.

David Higgins sem stjórnaði aðgerð Interpol segir að hún sé aðeins fyrsta skref alþjóðalögreglunnar í baráttunni gegn ólöglegri timbursölu.

Hann segir að í framtíðinni muni samstarf Interpol við skógarverði, tollverði og lögregluyfirvöld vera mjög mikilvægt til að stöðva þessa timbursölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×