Fótbolti

Club bauð 50 milljónir í Eið Smára | Áhugi frá Torino

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári hefur skorað sex mörk fyrir Cercle Brugge í haust.
Eiður Smári hefur skorað sex mörk fyrir Cercle Brugge í haust. Nordic Photos / AFP
Belgíska úrvalsdeildarfélagið bauð grannfélagi sínu, Cercle Brugge, rúmar 50 milljónir króna í Eið Smára Guðjohnsen. Tilboðinu var hafnað.

Þetta kemur fram í belgíska blaðinu Het Nieuwsblad í dag. Þar er enn fremur fullyrt að yfirmaður knattspyrnumála hjá Club Brugge, Arnar Grétarsson, sé ekki búinn að gefast upp í þessu máli.

Cercle Brugge er í erfiðri stöðu því í samningi Eiðs er klásúla um að honum sé frjálst að fara til annars félags án greiðslu þann 31. janúar næstkomandi - á lokadegi félagaskiptagluggans. Belgísk félög verða hins vegar að greiða fyrir hann.

Cercle, sem er í neðsta sæti deildarinnar, er hins vegar í fjárhagskröggum og gæti því hugnast að fá pening fyrir Eið Smára - þó svo að hann komi frá erkifjendunum í Club.

Club hefur einnig boðið leikmenn í skiptum fyrir Eið Smára - til að mynda Michael Almebäck, sænskan varnarmann, en án árangurs. Norðmaðurinn Tom Högli hefur einnig verið nefndur til sögunnar.

Enn fremur er fullyrt að auk ástralska liðsins Perth Glory sé áhugi á Eiði Smára hjá ítalska úrvalsdeildarliðinu Torino en liðið er í þrettánda sæti deildarinnar.

Þá er einnig sagt að Anderlecht - fyrrum félag Arnórs Guðjohnsen, föður Eiðs Smára - hafi átt góð samskipti við Cercle í gegnum tíðina og sé með leikmenn sem gætu hugnast síðarnefnda félaginu.

Eiður Smári vildi ekki tjá sig við belgíska blaðið vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×