Fótbolti

Fær loksins Ólympíubronsið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Park Jong-woo er ekki með á þessari mynd.
Park Jong-woo er ekki með á þessari mynd. Mynd/AFP
Suður-Kóreumaðurinn sem mátti ekki mæta á verðlaunaafhendinguna í fótbolta karla á Ólympíuleikunum í London mun fá bronsverðlaun sín eftir allt saman.

Park Jong-woo mátti ekki stíga upp á pallinn eftir að hafa haldið upp spjaldi með pólitískum áróðri þegar Suður-Kóreumennirnir fögnuðu sigri á Japan í leiknum um þriðja sætið.

Park Jong-woo fékk spjaldið frá áhorfenda en þar stóð "Dokdo tilheyrir okkur" en Dokdo-eyjar eða Takeshima-eyjar í Japan eru eyjar á milli ríkjanna sem báðar þjóðir gera tilkall til.

Park Jong-woo og félagar losnuðu við herþjónustu með því að vinna bronsið og suður-kóreska Ólympíunefndin gaf það út í gær að Park ætti að fá bronsið sitt á næstunni. Park Jong-woo er 23 ára gamall miðjumaður og spilar með Busan IPark í heimalandinu.

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, á reyndar eftir að taka málið fyrir og Park Jong-woo gæti átt á hættu að vera dæmdur í leikbann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×