Rúrik Gíslason leikmaður danska liðsins OB og íslenska landsliðsins var í viðtali í gær í Boltanum á X-inu 977. Hann lenti í óhappi í leik OB og Lyngby um síðustu helgi og fékk mikið höfuðhögg. Heljarstórt horn myndaðist fyrir ofan augabrún og Rúrik lýsti atvikinu í viðtalinu. Hann var þó ekki alveg viss um hvað gerðist og neitaði í fyrstu að fara útaf. En sem betur fer réði hann því ekki.
OB hefur ekki gengið alveg sem skyldi og liðið er í 8. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar en þrír leikir eru búnir eftir hlé.
Rúrik lenti í lok síðasta árs í deilum við þjálfara sinn en Rúrik lét hafa eftir sér í viðtali að honum þætti samkeppnin í liðinu ekki sanngjörn á stundum. Nokkuð var rætt um þessi ummæli í fjölmiðlum og blásið upp að nokkru leyti að mati Rúriks.
Hann segir þó að allt sé í góðu í dag á milli þeirra og nú sé bara að standa sig. Rúrik segist vera mjög metnaðargjarn og hann stefni hátt enda er kappinn aðeins 24 ára gamall. Hann ætlar sér að komast til stærra félags þó svo að honum líki mjög vel dvölin í Danmörku.
Rúrik var spurður að því hver tíminn væri á honum í 100 metra hlaupi og 60 metra hlaupi en hann sagðist ekki muna það. Þó upplýsti hann að samkvæmt mælingum í janúar væri hann fljótastur í liðinu.
Aðspurður um landsliðið og nýjan þjálfara sagði Rúrik að honum litist vel á þetta. Það væri vissulega möguleiki núna í riðlinum og að hann væri að upplifa nýja hluti með Lars Lagerback. Rúrik sagði einnig að sú gagnrýni sem Ólafur Jóhannesson fékk á tímabili hafi verið ósanngjörn að hans mati. Það hafi verið kynslóðaskipti í liðinu og að gagnrýnin hafi verið full hörð.
