Fótbolti

Rose vill að Serbum verði refsað fyrir kynþáttaníð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Danny Rose, leikmaður enska U-21 landsliðsins, segir að áhorfendur hafi beitt sig miklu kynþáttaníði þegar að Englendingar mættu Serbum í umspili fyrir EM 2013 í gær.

England vann leikinn, 1-0, og tryggði sér sæti í úrslitakeppni EM með 2-0 samanlögðum sigri. Rose sagði eftir leik að áhorfendur hefðu líkt eftir apahljóðum allan leikinn og að það hafi byrjað í upphitun.

„Tvívegis var steini kastað í höfuð mitt þegar ég var að taka innköst," sagði hann svo við enska fjölmiðla eftir leikinn.

„Eftir að 60 mínútur voru liðnar var ég ekki lengur með hugann við leikinn. Ég var mjög reiður og það varð erfitt að einbeita sér."

Connor Wickham tryggði Englandi sigur í uppbótartíma en Rose fékk að líta rauða spjaldið eftir að leiknum lauk fyrir að sparka boltanum inn í hóp áhorfenda.

„Þegar við skoruðum lét ég tilfinningar mínar í ljós enda búinn að þola ýmislegt í 90 mínútur. Það næsta sem ég vissi var að allir leikmenn Serba hópuðust í kringum mig. Tveir slógu mig í andlitið."

„Mér var fylgt af velli og þá sparkaði ég boltanum. Dómarinn rak mig af velli. Ég skildi það ekki enda var leiknum lokið. Svo komu fleiri apahljóð. Það ætti að setja þá í bann."

Aleksandar Jankovic, þjálfari U-21 liðs Serba, sagði enga þörf fyrir afsökunarbeiðni frá Serbum.

„Það þarf tvo til að deila - ekki bara einn. Ég sá ekki hvað gerðist en ég óska Englendingum til hamingju með að vera komnir áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×