Fótbolti

Þjálfari Noregs: Þessi leikur verður stríð

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
Eli Landsem, þjálfari norska kvennalandsliðsins, hefur náð að rífa liðið upp eftir erfiða byrjun í undankeppni Evrópumótsins og hún tjáði sig um komandi leik við Ísland inn á heimasíðu norska sambandsins en Noregur og Ísland mætast á Ullevaal leikvanginum. Þetta er lokaleikur liðanna í undankeppni EM og hreinn úrslitaleikur um sæti í úrslitakeppninni sem fer fram í Svíþjóð næsta sumar en íslenska liðinu nægir jafntefli til að koma á annað Evrópumótið í röð.

Norska liðið tapaði tveimur af fyrstu fjórum leikjum sínum í riðlinum en hefur nú unnið alla fjóra leiki sína á þessu ári, á móti Búlgaríu (3-0 og 11-0), Ungverjalandi (5-0) og Belgíu (3-2). Sigurinn á Belgíu tryggði liðinu öruggt sæti í umspilinu og úrslitaleik við Ísland um sæti í lokakeppninni.

„Leikurinn á móti Íslandi verður allt annar fóboltaleikur en sá á móti Belgíu. Íslenska liðið er mjög „norskt" í sínum leik, spilar beinskeyttan bolta og setur pressu á boltann. Íslensku stelpurnar hafa líka þetta kæruleysishugarfar líkt og karlalandsliðið þeirra. Þessi leikur verður stríð og við verðum að passa að þær nái ekki að spila sinn leik," sagði Eli Landsem.

„Við ætlum annars að einbeita okkur að okkar leik en ég ætla ekki að segja meira um það. Fullt af fólki í kringum íslenska liðið kann norsku og fylgjast vel með norsku fjölmiðlunum," sagði Landsem.

„Við erum búin að skoða íslenska liðið vel og þekkjum þær vel. Við ætlum að vinna þennan leik en þurfum að vera markvissar í okkar leik til þess að ná því. Það er gott að vera búin að tryggja okkur sæti í umspilinu þannig að við höfum allt að vinna í þessum leik," sagði Landsem.

Eli Landsem hefur þjálfað norska landsliðið frá árinu 2009 og stýrt liðinu tvisvar á móti Íslandi. Noregur vann 3-2 sigur í Algarve-bikarnum 2009 en íslensku stelpurnar unnu síðan 3-1 sigur í fyrri leik liðanna í undankeppni EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×