Fótbolti

Hólmfríður: Mér fannst við vera miklu betri en þær

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
Mynd/Daníel
Hólmfríður Magnúsdóttir, fékk ekki í kvöld þá afmælisgjöf sem hún vonaðist eftir þegar íslenska kvennalandsliðið tapaði 1-2 á móti Noregi í hreinum úrslitaleik um sigur í riðlinum og sæti á EM í Svíþjóð á næsta ári. Hólmfríður fagnar 28 afmæli sínu á morgun en fær vonandi síðbundna afmælisgjöf í október.

„Mér fannst við vera betra liðið í dag og við vorum að spila boltanum meira. Boltinn datt fyrir þær í dag en ekki fyrir okkur. Þetta er gríðarlega svekkjandi því mér fannst við vera miklu betri en þær. Við náðum að pressa á þær áður en þær skora og leikurinn gat dottið okkar megin í byrjun ef við hefðum verið heppnari. Ég er mjög ánægð með leik liðsins og spilið gekk vel. Það er jákvætt hvað við erum að spila vel og vonandi höldum við því áfram í haust.," sagði Hólmfríður.

Framundan eru tveir leikir í umspilinu en íslenska liðið á þar möguleika að fara sömu leið inn á EM og fyrir fjórum árum.

„Við förum bara lengri leiðina eins og síðast og fáum tvo leiki til viðbótar. Við klárum þetta bara í október í staðinn. Við erum með frábært lið og ég hef engar af því að við klárum þetta ekki í haust því við erum með það reynt og öflugt lið. Við ætlum ekki að hengja haus yfir þessu," sagði Hólmfríður og hún reyndi að líta á björtu hliðarnar þrátt fyrir að hún gæti ekki falið svekkelsið.

„Það verður bara gaman að fara lengri leiðina. 2009 tryggðum við okkur sæti á Laugardalsvellinum í frosti og á skautasvelli. Vonandi verður það aftur þannig. Við viljum líka ná að fylla völlinn heima og slá áhorfendametið," sagði Hólmfríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×