Erlent

Rússar segja NATO ofmeta hættuna

Jákvæður Þótt Sergei Lavrov væri gagnrýninn á NATO að vanda var mál manna á utanríkisráðherrafundinum að jákvæðari tónn hefði verið í ráðherranum en búizt var við og ágætur andi í samskiptum NATO og Rússlands sem stendur.
Jákvæður Þótt Sergei Lavrov væri gagnrýninn á NATO að vanda var mál manna á utanríkisráðherrafundinum að jákvæðari tónn hefði verið í ráðherranum en búizt var við og ágætur andi í samskiptum NATO og Rússlands sem stendur. nordicphotos/afp
Utanríkisráðherrar ríkja Atlantshafsbandalagsins samþykktu á fundi sínum í Brussel í gær að setja upp Patriot-loftvarnaflaugakerfi í Suður-Tyrklandi til að verjast hugsanlegum eldflaugaárásum frá Sýrlandi.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, fundaði með NATO-ráðherrunum fyrr um daginn og sagði að þeim fundi loknum að Rússar teldu NATO ofmeta hættuna á hugsanlegri eldflauga- og jafnvel efnavopnaárás. Eldflaugarnar væru óþarfar.

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, undirstrikaði enn og aftur að Patriot-flaugarnar væru eingöngu varnarviðbúnaður og NATO hygðist ekki blanda sér í átökin í Sýrlandi, til dæmis með því að setja á flugbann yfir hluta landsins, eins og sýrlenzkir uppreisnarmenn hafa kallað eftir. Þetta hefðu hann og utanríkisráðherrarnir farið rækilega yfir með rússneska starfsbróður þeirra.

Lavrov hafði þó sínar efasemdir er hann ræddi við blaðamenn eftir fundinn. Hann sagði að NATO-ráðherrarnir hefðu undirstrikað að „Sýrland væri ekki Líbía“ og Rússar vonuðust til að NATO dytti ekki í hug að skipta sér af átökunum í Sýrlandi. Hann sagði Rússa ekki gera athugasemd við það út af fyrir sig að NATO gripi til ráðstafana til að verja landsvæði Tyrklands. „Við vekjum bara athygli á því að menn eiga ekki að ofmeta hættuna,“ sagði Lavrov. „Við bendum líka á að ef menn safna að sér vopnum eykst hættan á að þau verði notuð.“

Hann sagði að það væri rétt að sýrlenzkt stórskotalið hefði skotið sprengjum yfir landamæri Tyrklands, en það væri mat Rússa að það hefði verið óvart. Hann sagði sömuleiðis að rússnesk stjórnvöld, sem áfram eru í góðu sambandi við stjórn Assads forseta í Sýrlandi, hefðu boðizt til að koma á beinum samskiptum milli NATO og Sýrlandsstjórnar til að forðast misskilning.

Undanfarna daga hafa bandarískir fjölmiðlar flutt fréttir af því að Sýrlandsstjórn sé að færa efnavopnabirgðir sínar á milli staða. Það hefur ýtt undir áhyggjur af því að stjórn Assads hyggist nota vopnin. Lavrov sagði þetta vera óstaðfestan orðróm; Rússar hefðu ágætar upplýsingar um að engir slíkir flutningar hefðu átt sér stað.

olafur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×