Íslenski boltinn

Valur fimmta Reykjavíkurfélagið hjá Takefusa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgólfur með Magnúsi Gylfasyni þjálfara.
Björgólfur með Magnúsi Gylfasyni þjálfara.
Björgólfur Takefusa gekk í gær frá tveggja ára samningi við Valsmenn og mun spila með liðinu í Pepsi-deildinni næsta sumar. Valur er fimmta Reykjavíkurfélag Björgólfs á ferlinum og enn fremur fjórða félagið sem hann spilar með í Pepsi-deildinni á síðustu fjórum sumrum.

Björgólfur er á 32. aldursári og hefur skorað 83 mörk í 168 leikjum í efstu deild. Hann er aðeins einn af ellefu mönnum sem hafa brotið 80 marka múrinn og vantar fjögur mörk til þess að komast upp fyrir Hörð Magnússon og þar með upp í sjötta sætið.

„Ég er ótrúlega ánægður að þetta skyldi ganga eftir. Að sama skapi er erfitt að fara úr Víkinni. Eftir að ég hitti mennina í kringum klúbbinn og Magga Gylfa þá varð ég alltaf spenntari fyrir verkefninu. Ég held að það séu mjög skemmtilegir tímar fram undan hjá Val," sagði Björgólfur við Hjört Hjartarson í útvarpsþættinum Boltanum á X-inu 977 í gær þar sem kom fyrst fram að hann væri á leiðinni á Hlíðarenda.

Björgólfur hefur verið samningsbundinn Víkingum undanfarin tvö ár en liðið féll úr deildinni 2011 og Björgólfur var í láni hjá Fylki í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×