Íslenski boltinn

Langar helst að spila með liði í Danmörku

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Fjölmörg lið í Skandinavíu vildu skoða Skagfirðinginn sterka.
fréttablaðið/stefán
Fjölmörg lið í Skandinavíu vildu skoða Skagfirðinginn sterka. fréttablaðið/stefán
Sauðkrækingurinn Rúnar Már Sigurjónsson er nýkominn til landsins en hann hefur verið á ferð og flugi frá því Pepsi-deildinni lauk í sumar. Þessi efnilegi Valsmaður hefur vakið athygli víða um Evrópu og er eftirsóttur. Það er því afar ólíklegt að við sjáum hann í Pepsi-deildinni næsta sumar.

„Þetta hefur verið stór pakki og nú er loks smá frí frá ferðalögum. Nú bíð ég bara eftir því hvað liðin vilja gera. Ég býst fastlega við því að heyra í þeim á næstu tveimur vikum," sagði Rúnar Már en leiktíðunum í Noregi og Svíþjóð er lokið og danska deildin er á lokasprettinum.

„Ég byrjaði á því að fara í vikutíma til SönderjyskE í Danmörku og þaðan fór ég þriggja daga ferð til Tromsö í Noregi. Þaðan lá leiðin til Kalmar í Svíþjóð þar sem ég var í fimm daga. Svo fór ég með landsliðinu til Andorra og loks aftur til SönderjyskE nú síðast," sagði Rúnar sem mokar inn flugpunktum en er feginn að vera kominn aftur heim.

„Þetta gekk ágætlega hjá mér. Fyrsta vikan í Danmörku var róleg enda þeir að spila mikið á þeim tíma. Þess vegna fór ég aftur og spilaði leik með varaliðinu sem mér fannst reyndar ekki ganga nógu vel. Ég fór aðallega til Noregs að skoða aðstæður.

Ég tók flottar æfingar í Svíþjóð og það gekk best þar fannst mér."

Fleiri félög vildu fá Rúnar til æfinga en hann ásamt umboðsmanni sínum ákvað að taka þessum boðum þar sem þau þóttu meira spennandi sem stendur.

„Ég vonast eftir því að fá tvö til þrjú tilboð svo ég geti valið besta kostinn. Danmörk heillar mest og ég vil helst spila þar. Það er besta deildin. Ef ekkert af þessu gengur upp þá skoða ég líklega hina kostina," sagði Rúnar en hann er samningsbundinn Val og spilar með þeim næsta sumar fari svo að hann komist ekki í atvinnumennsku á þessum tímapunkti.

„Það eru nánast engar líkur á því að ég spili hér heima næsta sumar en ég gæti fótbrotnað eða eitthvað og það myndi þá eyðileggja möguleikann á að fara út núna. Ein ástæðan fyrir því að ég samdi við Val var að hafa starfsöryggi. Ég býst samt við því að fara út," sagði Skagfirðingurinn sem var valinn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar 2012 af Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×