Fótbolti

Alexander Scholz: Lokeren virðist henta mér vel

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Alexander Scholz er hér að vinna auðveldan slag um skallabolta gegn Fylki í sumar.
Alexander Scholz er hér að vinna auðveldan slag um skallabolta gegn Fylki í sumar. Mynd/Ernir
Pepsi-deildarlið Stjörnunnar þarf að horfa á bak góðum manni því samningar hafa tekist um söluna á Dananum Alexander Scholz til Lokeren. Leikmaðurinn heldur utan til Belgíu í dag og mun væntanlega skrifa undir samning við félagið um helgina.

„Ég fer í læknisskoðun á föstudag og svo skrifum við undir samning um helgina ef allt gengur að óskum," sagði Scholz í Boltanum á X-inu í gær en hann átti frábært sumar með Stjörnunni.

„Ég vildi fá nýja áskorun og Lokeren virðist henta mér vel. Ég fór til reynslu á dögunum og það gekk frábærlega. Ég gat ekki verið sáttari. Þetta lítur út fyrir að vera fjölskylduklúbbur eins og Stjarnan. Lið rétt fyrir aftan þau bestu og getur gert atlögu að titlinum."

Daninn káti hefur mikinn metnað og ætlar sér stóra hluti í framtíðinni. „Ég þarf að standa mig vel hjá Lokeren og þá veit maður aldrei hvað getur gerst í framtíðinni."

Scholz er aðeins tvítugur og tók sér frí frá knattspyrnu árið áður en hann kom til Stjörnunnar. Hann vildi ferðast og fór meðal annars til Indlands.

„Ég vissi að þetta gæti verið hættulegt fyrir ferilinn minn en þetta gekk allt upp. Það voru samt margir hissa þegar ég tók þessa ákvörðun," sagði Scholz sem er mikill ævintýramaður. Ein af ástæðum þess að hann kom til Íslands var til þess að upplifa landið samhliða knattspyrnunni.

„Þetta hentaði mér fullkomlega. Mér hefur liðið vel á Íslandi. Ég hef ferðast mikið og fór hringveginn meðal annars. Þetta er búinn að vera frábær tími sem ég sé ekki eftir. Ég á örugglega eftir að koma aftur til Íslands og hver veit nema ég ljúki ferlinum hér á landi. Ég myndi þá líklega spila með Stjörnunni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×