Fótbolti

Þetta lið stefnir alltaf á sigur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Allir leikmenn íslenska liðsins eru heilir heilsu og klárir í slaginn í dag.
fréttablaðið/daníel
Allir leikmenn íslenska liðsins eru heilir heilsu og klárir í slaginn í dag. fréttablaðið/daníel
Íslenska kvennalandsliðið á mjög erfiðan leik fyrir höndum í dag er það sækir Úkraínu heim í umspili fyrir EM í Svíþjóð en það mót fer fram á næsta ári. Þetta er fyrri leikur liðanna. Síðari leikurinn fer fram á Laugardalsvelli næstkomandi fimmtudag. Sigurvegarinn í umspilinu fær farseðil á mótið og því að miklu að keppa.

Landsliðsþjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson segir að sitt lið sé klárt í slaginn. Það væsi ekki um liðið í sólinni á Úkraínu þar sem liðið býr á góðu hóteli við ströndina.

„Hér hefur allt verið til fyrirmyndar. Hótelið gott, maturinn fínn sem og æfingavellirnir. Þess utan erum við ekki að glíma við nein meiðsli í hópnum og vonandi kemur ekkert óvænt upp á," sagði Sigurður Ragnar við Fréttablaðið í gær en liðið var þá á leið á æfingu á sjálfum keppnisvellinum.

„Við rennum aðeins blint í sjóinn gagnvart þessu liði enda ekki mætt þeim lengi. Við vitum þó að þetta er mjög sterkt lið og verkefnið erfitt. Liðið verður að vera fljótt að læra í þessum elik hvernig sé best að spila. Við gætum því gert ýmsar breytingar í leikskipulagi meðan á leik stendur eftir því hvernig gengur hjá okkur," sagði Sigurður Ragnar en hann segir sitt lið vera búið að skoða leik andstæðinganna í þaula.

Úkraínska liðinu gekk illa á heimavelli í undankeppninni en var aftur á móti að vinna útileikina sína. Það gæti því verið lag fyrir íslenska liðið í þessum leik.

„Við leggjum þennan leik upp þannig að þetta sé bara úrslitaleikur og hugsum ekkert um seinni leikinn. Það eru allar aðstæður hér til þess að spila góðan fótbolta en við vitum ekkert hvaða aðstæður bíða okkar síðan á Íslandi," sagði Sigurður þannig að það verður kýlt á það í leiknum.

„Þetta lið stefnir alltaf á sigur. Það hefur ekkert breyst. Við ætlum að mæta grimmar og selja okkur mjög dýrt. Það er spáð ágætu veðri og vonandi er keppnisvöllurinn góður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×