Fótbolti

Ísland hefur aldrei náð í stig á Balkanskaganum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hermann Hreiðarsson skoraði síðasta mark Íslands í alvörulandsleik á Balkanskaganum. Hér fagnar hann á móti Búlgaríu.
Hermann Hreiðarsson skoraði síðasta mark Íslands í alvörulandsleik á Balkanskaganum. Hér fagnar hann á móti Búlgaríu. nordic photos / afp
Íslenska karlalandsliðið mætir Albaníu í Tírana í kvöld í undankeppni HM. Balkanskaginn hefur verið allt annað en gjöfull fyrir íslenska landsliðið í undankeppnum HM og EM í gegnum tíðina. Íslenska landsliðið hefur spilað sjö alvöru landsleiki í þessum hluta Evrópu og hafa þeir allir tapast.

Það eru liðnir meira en tveir áratugir síðan íslenska landsliðið spilaði sinn fyrsta landsleik á Balkanskaganum og það var einmitt á móti Albaníu á Qemal Stafa-leikvanginum í maí 1991. Íslenska liðið átti þá afleitan leik og tapaði 0-1 fyrir heimamönnum en þau úrslit voru mikil vonbrigði og einu stigin sem Albanar fengu í riðlinum.

Fyrstu fjórir leikir íslenska karlalandsliðsins í Balkanlöndunum töpuðust allir naumlega en þeir voru í Albaníu, Grikklandi, Makedóníu og Búlgaríu. Íslenska liðið er aftur á móti búið að fá á sig 9 mörk í undanförnum þremur leikjum sínum á Balkanskaganum. Þar af tapaði liðið 0-4 á móti Króatíu árið 2005 og 0-2 á móti Makedóníu í síðasta leik sínum þar sem var í júní 2009.

Íslenska liðið var reyndar nálægt því að brjóta múrinn í september 2005. Íslenska liðið komst þá í 2-0 eftir sextán mínútna leik á móti Búlgaríu í Sofíu en tapaði leiknum á endanum 3-2. Íslenska liðið fékk dauðafæri til að bæta við forystuna en varð enn á ný að sætta sig við einn eitt stigalausa ferðalagið heim til Íslands.

Íslenska liðið hefur einnig tapað báðum vináttulandsleikjum sínum í Balkanlöndunum. Sá fyrri var á móti Albaníu 2004 og sá seinni í Svartfjallalandi í febrúar á þessu ári en það var annar leikur íslenska liðsins undir stjórn Lars Lagerbäck.

Alvörulandsleikir Íslands á Balkanskaganum

26. maí 1991* 0-1 tap fyrir Albaníu

13. maí 1992 0-1 tap fyrir Grikklandi

7. júní 1997 0-1 tap fyrir Makedóníu

24. mars 2001 1-2 tap fyrir Búlgaríu

26. mars 2003 0-4 tap fyrir Króatíu

7. sept. 2005 2-3 tap fyrir Búlgaríu

10. júní 2009 0-2 tap fyrir Makedóníu

Samtals: 7 leikir, 7 töp.

Markatala: 3-14

*Leikur í undankeppni EM




Fleiri fréttir

Sjá meira


×