Íslenski boltinn

Margrét Lára búin að fresta aðgerðinni sinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára verður með gegn Úkraína.
Margrét Lára verður með gegn Úkraína. Daníel
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari kvennalandsliðsins, valdi í gær hópinn sem mætir Úkraínu í tveimur umspilsleikjum síðar í þessum mánuði, en í boði er sæti í úrslitakeppni EM. Leikið verður ytra 20. október og hér heima, á Laugardalsvelli, fimmtudaginn 25. október. Sigurður Ragnar var mjög ánægður með frammistöðu liðsins á móti Noregi og valdi sömu 18 leikmenn og fóru út til Noregs í lokaleik riðlakeppninnar.

"Frammistaða liðsins var góð og við höfðum yfirburði í leiknum. Þegar við fengum greiningu á leiknum frá Prozone sáum við að við vorum mun meira með boltann, áttum fleiri heppnaðar sendingar og vorum yfir á flestum tölfræðilegum sviðum, sem er nýtt fyrir okkur á móti svona sterku liði á útivelli," sagði Sigurður Ragnar. "Við stillum upp mjög leikreyndu liði og þetta eru leikmenn sem hafa verið mjög lengi með okkur og spilað mjög marga landsleiki. Við vitum að það er gott að hafa reynslu þegar komið er í svona verkefni," sagði Sigurður.

"Við höfum fengið nokkra leiki með Úkraínu senda og þetta er virkilega gott lið sem við erum að fara að mæta. Þær eru sérstaklega góðar í að halda boltanum innan liðsins og eru með vel spilandi lið," sagði Sigurður Ragnar.

"Það verður áhugavert að sjá þessi tvö lið mætast því þau spila mjög ólíkan fótbolta. Ég tel samt að Úkraína sé mun sterkara lið en Írland og þetta verða því erfiðir leikir," sagði Sigurður Ragnar, en Ísland komst inn á síðasta EM eftir að hafa slegið Írland út í tveimur umspilsleikjum.

Margrét Lára Viðarsdóttir er að spila á fullu með Kristianstad og verður með í þessum leikjum, en hún frestaði aðgerð sinni fram í næsta mánuð.

"Ástandið á Margréti Láru er betra, sem er jákvætt fyrir okkur. Hún frestaði aðgerðinni fram til 10. nóvember. Henni sjálfri finnst hún vera í betra standi, hún er að klára 90 mínútur með Kristianstad og skora mörk, sem er mjög jákvætt fyrir okkur. Hún er að koma upp aftur," sagði Sigurður Ragnar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×