Knattspyrnukappinn Guðjón Baldvinsson hefur farið á kostum með Halmstad í sænsku B-deildinni á yfirstandandi tímabili. Guðjón er markahæstur í deildinni með 11 mörk í 13 leikjum.
Guðjón hefur verið orðaður við sænska úrvalsdeildarfélagið Helsinborg en með liðinu leikur landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason. Guðjón sagðist í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu ekki vita hvort nokkuð væri til í þessum orðrómum.
„Ég bara veit það ekki. Þetta er ekkert sem maður er að pæla í. Ég er virkilega ánægður hérna í Halmstad og loksins fundið minn rétta jarðveg sem fótboltamaður. Óþarfi að flytja sig um set núna," segir Guðjón.
Guðjón var á sínum tíma á mála hjá sænska félaginu GAIS. Hann var beðinn um að útskýra muninn á dvölinni hjá GAIS þar sem lítið gekk og hjá Halmstad þar sem hann blómstrar.
„Þegar ég kom hingað fékk ég strax tækifærið. Þjálfarinn hafði trú á mér ólíkt hinum staðnum þar sem ég fékk aldrei að spila sama hvað ég gerði. Aðalmunurinn er að þjálfarinn hefur trú á mér og það er létt að blómstra í þannig umhverfi."
Um tíma spilaði GAIS leikkerfið 4-6-0 ekki ósvipað og Spánverjar hafa nýtt á Evrópumótinu í knattspyrnu. Eins og gefur að skilja var ekki pláss fyrir framherja í því leikkerfi.
„Þegar þú ert framherji í liði sem vill ekki nota framherja hugsar maður: „Vá, er ég svona lélegur. Þá langaði mig að hætta í fótbolta," segir Guðjón sem segir hlutverk sitt hjá GAIS hafa verið virkielga óspennandi.
Halmstad, sem situr í þriðja sæti B-deildarinnar, mætir Falkenbergs FF á mánudaginn. Liðið verður án Guðjóns sem tekur út leikbann.
