Enski boltinn

Lundúnaslagur í skugga dóms

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Terry spilar í dag þrátt fyrir að hafa verið dæmdur í bann í vikunni.
nordicphotos/Getty
Terry spilar í dag þrátt fyrir að hafa verið dæmdur í bann í vikunni. nordicphotos/Getty
Lundúnaliðin Arsenal og Chelsea mætast í hádegisleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og er leiksins eins og ávallt beðið af mikilli eftirvæntingu. Augu flestra munu þó vafalaust beinast að John Terry, fyrirliða Chelsea, sem í fyrradag var dæmdur í fjögurra leikja bann fyrir kynþáttaníð gagnvart Anton Ferdinand, leikmanni QPR.

Terry er þó enn að íhuga hvort hann eigi að áfrýja dómnum og hefur hann tvær vikur til þess. Af þeim sökum er refsingu frestað þar til niðurstaða fæst í áfrýjunarferlið. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að Terry spili á morgun og segja forráðamenn Chelsea það enga fyrirstöðu þó svo að hann hafi ekki æft mikið í vikunni.

„Ég hef engar áhyggjur af John,“ sagði Roberto Di Matteo, stjóri Chelsea. „Hann er fagmaður og býr yfir eins mikilli reynslu og mögulegt er. Þetta mál hefur tekið langan tíma og það eina sem við getum gert er að bíða og sjá til. En hann er gjaldgengur fyrir þennan leik og hefur ekkert breyst okkar megin,“ bætti hann við.

Sjö aðrir leikir eru á dagskrá í dag og hefjast sex þeirra klukkan 14.00. Liverpool fer í heimsókn til Norwich og Englandsmeistarar Manchester City sækja Fulham heim. City-menn hafa tapað nokkrum stigum í upphafi tímabilsins og hafa enn ekki náð að halda marki sínu hreinu til þessa.

Liverpool er enn að bíða eftir fyrsta sigri tímabilsins en það sama á reyndar við um lið Norwich.

„Jafntefli væri ekki nógu góð úrslit gegn Norwich. Því lengur sem við þurfum að bíða eftir fyrsta sigrinum því erfiðara verður það,“ sagði Steven Gerrard.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans í Tottenham mæta svo Manchester United á Old Trafford. Tottenham hefur ekki gengið vel á þessum velli síðustu ár og ekki unnið þar síðan 1989.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×