Fótbolti

Sigurður Ragnar: Eigum helmingsmöguleika

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
vonandi enginn snjór Landsliðsþjálfarinn vonar að það þurfi ekki að moka völlinn fyrir leik eins og síðast.fréttablaðið/daníel
vonandi enginn snjór Landsliðsþjálfarinn vonar að það þurfi ekki að moka völlinn fyrir leik eins og síðast.fréttablaðið/daníel
Stelpurnar okkar þurfa að fara Krýsuvíkurleiðina á EM 2013 en það varð ljóst er liðið tapaði gegn Noregi ytra í vikunni. Þær þurfa að fara í umspil til þess að komast inn á mótið og var dregið í það í gær. Þar dróst Ísland gegn sterku liði Úkraínu. Leikirnir fara fram í lok október og á Ísland seinni leikinn heima.

„Þetta leggst ágætlega í mig. Ég veit ekkert of mikið um þær núna. Þetta lið fór þó síðast í lokakeppni EM og stóð sig vel þar og vann Finnland. Þær unnu útileiki sína í undankeppninni en misstigu sig á heimavelli," sagði landsliðsþjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson um væntanlegan mótherja í umspilinu.

Ísland hefði einnig getað dregist gegn Austurríki og Skotlandi og Úkraínu var því líklega ekki neinn happadráttur.

„Úkraínska liðið hefur farið í lokakeppni ólíkt hinum liðunum. Þetta er líka lengsta ferðalagið. Ég veit samt ekki hvort þetta sé besta liðið. Þessi þrjú lið eru líklega mjög svipuð. Ég myndi segja að við ættum helmingsmöguleika á því að komast inn á EM."

Úkraínska liðið er meira og minna skipað leikmönnum sem spila í heimalandinu og í Rússlandi.

„Þær eru með einn leikmann sem skorar mikið rétt eins og við eigum einn þannig. Svo á ég eftir að sjá leiki með þeim til þess að geta metið liðið betur. Fyrir fram stefnir þó í mjög jafna og erfiða leiki," sagði Sigurður sem er þó ánægður með að eiga seinni leikinn á heimavelli.

„Það er plús. Ekki spurning. Mér finnst það alltaf betra. Vita hvað við þurfum að gera og vonandi fá góðan stuðning til þess þó svo veðrið verði líklega ekkert sérstakt þegar leikurinn fer fram," sagði Sigurður og hló við en síðast er stelpurnar léku í umspili þurfti að moka snjó af vellinum fyrir leik. „Vonandi gerist það ekki aftur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×