Erlent

Sagðist vita hver myrti Palme

Hans Kristian og Eva Rausing Sænska lögreglan ætlar til London að yfirheyra Hans Kristian Rausing.nordicphotos/AFP
Hans Kristian og Eva Rausing Sænska lögreglan ætlar til London að yfirheyra Hans Kristian Rausing.nordicphotos/AFP

„Ekki gleyma að rannsaka þetta ef ég dey skyndilega," skrifaði Eva Rausing í tölvupósti til sænska blaðamannsins Gunnars Wall. Svo bætti hún við: „Bara grín, vona ég!"

Þetta sagði hún í júní á síðasta ári eftir að hafa trúað Wall fyrir því að eiginmaður hennar, sænski auðkýfingurinn Hans Kristian Rausing, hefði fyrir mörgum árum komist að því hver stóð fyrir morðinu á sænska stjórnmálamanninum Olof Palme, sem var skotinn á götu úti í Stokkhólmi árið 1986.

Hún fullyrti að þekktur sænskur kaupsýslumaður hefði talið Palme ógna viðskiptahagsmunum sínum og látið myrða hann. „Ég held að ég viti hvar morðvopnið er falið," sagði hún.

Eva Rausing dó síðan skyndilega í sumar á heimili sínu í London. Eiginmaður hennar, sænski auðkýfingurinn Hans Kristian Rausing, var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir að láta lík hennar liggja óhreyft vikum saman undir fatahrúgu í svefnherbergi þeirra þangað til það fannst. Þau höfðu bæði lengi verið háð fíkniefnum.

Sænska dagblaðið Expressen fullyrðir að Eva Rausing hafi haft samband við sænsku lögregluna strax árið 2010, en grunur hennar hafi ekki þótt trúverðugur.

Nú hyggst sænska lögreglan kanna betur hvað hæft er í þessu og ætlar að yfirheyra Hans Kristian Rausing. Það verður gert í London.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×