Innlent

Strætó býður ferðir til fjörutíu kaupstaða

Eftir áramót verða Vestfirðir og Austfirðir einu landshlutarnir sem Strætó keyrir ekki til, að hálendinu undanskildu.
Eftir áramót verða Vestfirðir og Austfirðir einu landshlutarnir sem Strætó keyrir ekki til, að hálendinu undanskildu. Fréttablaðið/Pjetur
Um áramótin hefst reglubundinn akstur Strætó um allt norðaustanvert landið. Hægt verður að taka strætó frá Reykjavík til Egilsstaða. Akstur til Leifsstöðvar í skoðun. Aust- og Vestfirðir einu byggðu landshlutarnir sem eru undanskildir.

Strætó mun hefja reglubundinn akstur um mestallt norðaustanvert landið eftir áramót. Þá verður hægt að taka strætó frá Akureyri til Siglufjarðar, Húsavíkur, Þorlákshafnar og Egilsstaða.

Forsvarsmenn Strætó hafa nú þegar gert samninga um fyrirkomulagið við tilheyrandi sveitarfélög og segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., að aksturinn muni hefjast um og eftir áramót, en daglegar ferðir á milli Akureyrar og Reykjavíkur hefjast 2. september næstkomandi, eins og greint hefur verið frá.

„Það verður enn frekari útbreiðsla á strætisvagnakerfinu með því að taka inn allt Norðurland eystra, Siglufjörð og byggðina austan Akureyrar,“ segir Reynir. „Þá sitja Austfirðirnir og Vestfirðir eftir.“

Enn frekara samstarf við sveitarfélögin á Suðurnesjum er einnig í undirbúningi. Samtök sveitarfélaganna hafa óskað eftir svipuðu samstarfi við Strætó og hefur tíðkast á Suðurlandi og segir Reynir að takmarkið sé að gera bæjarfélögin eins samtengd og kostur er.

Um áramótin mun Strætó keyra til um 40 bæjarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins á Suðurlandi, Suðurnesjum, Vesturlandi og austanverðu Norðurlandi.

Aðspurður hvernig vagnarnir muni ráða við ófærð á vegum að vetri til segir Reynir það vera í skoðun.

„Þessir vagnar eru engin torfærutröll,“ segir hann. „Strætóarnir okkar þola þó meira rok heldur en stór rúta sem er upphækkuð, en hún gæti verið duglegri í snjó. Það eru alltaf kostir og gallar.“ Þá bætir Reynir við að öryggismál farþega verði þó alltaf í forgrunni og því sé nú unnið að veðurviðmiðunum vegna akstursins úti á landi.

Akstursleiðum utan höfuðborgarsvæðisins er skipt upp í ellefu kílómetra belti í loftlínu og fer fargjaldið eftir því hversu mörg belti farið er yfir. Hvert tekur til sín 350 krónur miðað við hæsta gjaldflokk. Því kostar fargjald á milli Reykjavíkur og Akureyrar 7.700 krónur, þar sem farið er yfir 22 belti á leiðinni. sunna@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.