Innlent

Um 150 Íslendingar fóru með hlutverk í Noah

Russell Crowe fer með hlutverk Noah.
Russell Crowe fer með hlutverk Noah.
Alls unnu 220 manns að kvikmyndinni Noah, sem tekin var upp að hluta til hér á landi, og voru Íslendingar meira en helmingur þeirra. Um 150 Íslendingar fóru með misstór hlutverk í myndinni. Leigðar voru samtals 3.650 nætur á hótelherbergjum. Tökuliðið leigði þrjátíu jeppa, tíu sendibíla og 75 fólksbíla.

Þetta kemur fram í svörum frá Julie Kuehndorf, upplýsingafulltrúa stórmyndarinnar, sem Fréttablaðið óskaði eftir.

Meira en 300 fyrirtæki áttu í viðskiptum við framleiðendur myndarinnar, meðal annars vegna leigu og kaupa á tækjum, bensíni og mat.

Undirbúningur vegna framleiðslu myndarinnar hér á landi hófst í nóvember síðastliðnum þegar Darren Aronofsky, leikstjóri myndarinnar, kom fyrst til Íslands að skoða tökustaði.

Meðal tökustaða voru Djúpavatnsleið, Sandvíkurklofi, Lambhagatjörn og Undirhlíðanáma við Kleifarvatn, Sandvík, Hafnir, Reynisfjara, Raufarhólshellir, Leirhnjúkur við Mývatn, Hamragarðaheiði og Svartiskógur.

Tökustaðir eru fleiri í Noah en nokkurri annarri erlendri kvikmynd sem hér hefur verið tekin upp. Tökur á Íslandi tóku fjórar vikur, sem er þriðjungur heildartímans sem áætlaður er í tökur. Aðrir hlutar verða teknir upp í nágrenni New York.

„Nú, þegar tökum á Íslandi er lokið, vil ég nota tækifærið og þakka okkar frábæra íslenska starfsfólki fyrir óendanlegan dugnað, sem og Íslendingum fyrir göfuga gestrisni með því að bjóða Noah velkominn til landsins," segir Aronofsky. „Ísland er magnaður staður sem bauð okkur upp á ótrúlega fjölbreytta tökustaði. Takk, Ísland. Ég hlakka til að koma aftur!" Frumsýning Noah er áætluð í mars 2014. sunna@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×