Innlent

Hljóp á 57,57 á 57 ára afmælinu

Sigurbjörg varð mjög undrandi þegar hún heyrði tímann á hlaupinu.
Sigurbjörg varð mjög undrandi þegar hún heyrði tímann á hlaupinu. Fréttablaðið/valli
„Það er kannski spurning um að fá talnasérfræðing til að rýna í þessar tölur. Ég er viss um að við hefðum bæði gaman af því," segir doktor Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, lektor í stjórnsýslufræðum við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og hlaupari. Sigurbjörg fagnaði 57 ára afmæli sínu á laugardaginn og bætti um betur með því að hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á hinum skemmtilega viðeigandi tíma 57,57 mínútum.

Aðspurð segir Sigurbjörg að sekúndubrotin hafi ekki verið 57 eins og mínúturnar og sekúndurnar, en það skemmi þó ekki ánægjuna og undrunina með þennan skemmtilega tíma. „Þetta er alveg ótrúlegt. Ég segi í gríni að það verið útpælt að koma í mark á þessum tíma vegna afmælisins og gef þannig í skyn að ég hefði getað hlaupið þetta hraðar," segir hún og hlær.

„Sannleikurinn er sá að þetta var hreinasta tilviljun og ég varð mjög hissa þegar ég sá tímann. Eftir hlaupið naut ég afmælisdagsins og menningarnætur í hverfinu mínu, Goðahverfinu, þar sem alls konar fólk kom í heimsókn. Ég var dálítið hátt uppi af endorfíni og sagði öllum sem heyra vildu frá þessari skemmtilegu tilviljun."

Sigurbjörg hefur hlaupið síðan 2001, þegar hún fór sitt fyrsta maraþon í London. „Þá hljóp ég maraþonið á fjórum klukkustundum og fjórtán mínútum. Á sama tíma sló Paula Radcliffe heimsmetið þegar hún hljóp á tveimur klukkutímum og fjórtán mínútum, einungis tveimur klukkutímum skemur en ég. Svo hljóp ég Reykjavíkurmaraþon árið 2004 og bætti tímann minn um níu mínútur, en síðan þá hef ég hlaupið hálfmaraþon bæði hér heima og erlendis," segir Sigurbjörg og bætir við að yfir sumartímann hlaupi hún að meðaltali um tuttugu til tuttugu og fimm kílómetra á viku.

„Ég fer út að hlaupa tvisvar til þrisvar í viku og fer varla út fyrir mikið minna en átta kílómetra. Mjög oft hleyp ég fimmtán kílómetra og hleyp mikið fyrir ofan Reykjavík, oft heiman frá mér upp í Selás og stundum í kringum Rauðavatn og þar um kring. Mér finnst gott að hlaupa ein, pæli mikið og hugsa í lausnum á leiðinni, en ég fæ líka lánaða labradorhunda hjá systkinum og vinum. Það er fínt að hafa hundana til að halda mér við efnið."

Aðspurð segir Sigurbjörg stefnuna setta á tímann 58,58 í sama hlaupi að ári. „Ég verð að fara að æfa mig strax undir það. Þetta er úthugsað sport, ekki síður en líkamlegt."

kjartan@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×