Innlent

Fjögur þúsund ný börn í umferðinni

Grunnskólar verða settir í vikunni og má því búast við aukinni umferð þegar fjörutíu þúsund börn hefja skólaárið.
Grunnskólar verða settir í vikunni og má því búast við aukinni umferð þegar fjörutíu þúsund börn hefja skólaárið. fréttablaðið/vilhelm
Grunnskólar verða víðast hvar settir í vikunni. Um fjörutíu þúsund börn hefja þá skólaárið með tilheyrandi umferðarþunga. Umferðarstofa brýnir fyrir fólki að kenna börnum á umferðina og lögreglan verður með aukið eftirlit víða.

Fjörutíu þúsund grunnskólabörn hefja nýtt skólaár í þessari viku og þar af um fjögur þúsund í fyrsta bekk.

Umferðarstofa brýnir fyrir fólki að taka tillit til aukinnar umferðar sem hlýst af skólabyrjun og nýliðum í umferðinni.

Grunnskólar í Reykjavík verða settir á morgun. Flest börn stunda nám í borginni, eða um fjórtán þúsund í 34 almennum skólum, tveimur sérskólum og fimm einkaskólum.

Grunnskólar í Garðabæ og Kópavogi verða einnig settir á morgun, en á fimmtudag í Hafnarfirði, á Álftanesi og í Mosfellsbæ. Þá verður grunnskóli Seltjarnarness settur á föstudag.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verður með aukið eftirlit með umferð í þessari viku vegna skólabyrjunarinnar og hvetur ökumenn til að gera ráð fyrir stóraukinni umferð í sínum tímaáætlunum.

„Lögregla mun á sama tíma auka sýnilegt eftirlit á stofnæðum höfuðborgarsvæðisins sérstaklega en einnig í íbúðahverfum í nágrenni við grunnskóla. Markmiðið er sem fyrr að minna ökumenn á að fara varlega í umferðinni,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Barn sem er að byrja í skóla hefur ekki þroska eða reynslu til að átta sig á því sem skiptir máli að gefa gaum að í umferðinni að sögn Umferðarstofu. Nauðsynlegt er því að brýna fyrir börnum að þótt þau sjái bíla sé ekki öruggt að bílstjórar sjái þau. Ef þau eru gangandi er mikilvægt að velja frekar þá leið þar sem þarf að fara yfir fæstar götur en stystu leiðina.

Þar sem keyra verður börn í skólann er nauðsynlegt að huga að því hvar þeim er hleypt út úr bílnum, og að það sé ekki gert þar sem hætta geti skapast.

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×