Innlent

Verða að hafa trú á þorpunum fyrir vestan

Hann segir að heimamenn, yfirvöld og lánastofnanir þurfi nú að sýna í verki að þau hafi trú á landsbyggðinni.
Hann segir að heimamenn, yfirvöld og lánastofnanir þurfi nú að sýna í verki að þau hafi trú á landsbyggðinni. fréttablaðið/vilhelm
„Það hefur aldrei verið mín meining að nota þetta hús sem sumarhús,“ segir Ómar Sigurðsson sem í júlí síðastliðnum keypti hús á Bíldudal. Í grein Fréttablaðsins um húsnæðisskort þar í bæ sagði að það hús yrði nýtt sem sumarhús en í því býr nú fimm manna fjölskylda sem þarf að finna sér nýtt húsnæði sem er ekki heiglum hent í húsnæðisskortinum. Af þeim sökum hefur Ómar frestað því að flytja inn í húsið. „Ég keypti mér bát sem ég gerði út frá Bíldudal í sumar og mun gera í haust og í framtíðinni.“

Hann segir að í raun sé það jákvæð þróun að hús séu orðin eftirsótt á sunnanverðum Vestfjörðum eftir langt hnignunarskeið þar. „Nú þarf að bregðast við þessari þróun. Í fyrsta lagi þurfa heimamenn að sýna það í verki að þeir hafi trú á framtíðinni þarna með því að fjárfesta. Það er til dæmis eitt einbýlishús til sölu nú á góðu verði sem enginn hefur boðið í. En ég hef líka skilning á því að það geta ekki allir farið út í slík kaup og þá kemur að síðari þættinum en hann er sá að lánastofnanir og yfirvöld þurfa líka að sýna í verki að þau hafi trú á framtíðinni þarna.“

Ómar bjó á Bíldudal á áttunda áratugnum en varð að fara þegar niðursveiflan kom með þunga þar í byrjun þess níunda. „Nú get ég loksins farið þangað aftur og ég veit að margir myndu vilja gera slíkt hið sama,“ segir hann.- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×