Innlent

Stefnir í eitt albesta berjaárið

Sveinn Rúnar Hauksson segir berjaárið lofa góðu.
Sveinn Rúnar Hauksson segir berjaárið lofa góðu.
„Þetta berjaár er eitt af þessum allra bestu sýnist mér,“ segir Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og áhugamaður um ber.

„Mörg síðastliðin ár hafa reyndar verið góð berjaár, þó sérstaklega árið 2010. En það stefnir í að þetta verði eitt af albestu berjaárunum. Sprettan er mikil og góð og svo er hún líka snemma á ferðinni. Ég reikna með að berjatímabilið hafi lengst um tvær til þrjár vikur frá því áður,“ segir Sveinn.

Sveinn segir að berin séu nú þegar tilbúin til tínslu.

„Aðalbláber og bláber eru vel þroskuð á vestanverðu landinu og sprettan er góð sunnan til líka. Ég fór til að mynda til Þingvalla og það mátti ekki tæpara standa, því sum berin voru sprungin.“

Sveinn segir að á Norðurlandi sé berjasprettan einnig skapleg og mun betri en til dæmis í fyrra.

Sveinn mælir með því við þá sem langar að skreppa út fyrir bæjarmörkin í berjaleiðangur, að fara til Þingvalla, upp í Mosfellssveit og jafnvel alla leið að Esju. Kjósin geymir einnig gott berjaland og það sama á við um Hafnarfjarðarhraun.- ktg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×