Innlent

Húsnæðisskortur en samt mörg tóm hús

Vandi fylgir vegsemd hverri en nú þegar vel árar á Bíldudal ríkir þar húsnæðisskortur sem kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar mörg hús eru löngum mannlaus.
Vandi fylgir vegsemd hverri en nú þegar vel árar á Bíldudal ríkir þar húsnæðisskortur sem kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar mörg hús eru löngum mannlaus. mynd/egill aðalsteinsson
Brýnn húsnæðisskortur en nú á Bíldudal sem mörgum þykir kannski skjóta skökku við þar sem fjölmörg hús þorpsins standa auð, sérstaklega yfir vetrartímann. Fyrir nokkrum árum var atvinnuástand á Bíldudal í mikilli lægð. Margir neyddust þá til að selja hús sín og títt var að menn keyptu þessi hús og nota síðan sem sumarhús. Nú er erfitt að kaupa og leigja hús og enn hika menn við að byggja þau.

Til dæmis leigir nú fimm manna fjölskylda hús þar í bæ sem nýlega var selt nýjum eiganda sem hyggst nota það sem sumarhús næsta sumar. Þá mun þessi fjölskylda neyðast til að flytja burt nema ef glæðir til í þessum efnum.

„Auðvitað finnst mörgum það gremjulegt að fólk geti ekki flutt hingað vegna húsnæðisskorts en á meðan er mannlaust nánast í öðru hverju húsi á veturna,“ segir Sólrún Aradóttir íbúi á Bíldudal. „Við vorum nú að reyna að koma tölu á þetta um daginn en ég held að það séu á bilinu þrjátíu til fjörutíu sumarhús hérna sem eru notuð mismikið,“ segir hún. Núna búa um 150 manns allan ársins hring í þorpinu.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstýra Vesturbyggðar, segir það brýnt að leysa þennan vanda en þó sé það vissum vandkvæðum bundið fyrir fólk að byggja hús á landsbyggðinni. Það kemur heim og saman við mál Ásu Dóru Finnbogadóttur, formanns íbúasamtaka Bíldudals, Sólrúnar og Gísla Ægis Ágústssonar sem einnig er íbúi á Bíldudal. „Það er ekkert launungarmál að lánastofnanir eru mjög tregar til að lána á landsbyggðinni og svo gerir mikill flutningskostnaður fólki erfitt fyrir,“ segir Ása Dóra. „Svo hefur fólkið auðvitað upplifað ýmislegt í gegnum tíðina þannig að það skilur vel áhættuna sem felst í því að kaupa hús í þorpi úti á landi jafnvel þó það gangi vel í atvinnulífinu í augnablikinu,“ segir Ása Dóra.

„Vandinn er líka sá að það er varla hægt að leigja sér hús heldur,“ segir Gísli Ægir. „Það getur náttúrlega engin fjölskylda staðið í því að leigja nokkra mánuði í senn.“

Öllum sem Fréttablaðið ræddi við bar saman um að það væri í raun jákvætt að fólk hefði keypt hús í þorpinu og haldið þeim við en óneitanlega væri ankannaleg staða komin upp.jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×