Innlent

Unnið að hættumati vegna eldgosa í byggð

Hér sést bjarminn frá eldstöðvunum á Fimmvörðuhálsi að baki Réttarfells. Fyrir liggur hættumat vegna Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls, sem mun nýtast við vinnuna.
Hér sést bjarminn frá eldstöðvunum á Fimmvörðuhálsi að baki Réttarfells. Fyrir liggur hættumat vegna Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls, sem mun nýtast við vinnuna. Fréttablaðið/Vilhelm
Undirbúningur er hafinn við gerð frekara hættumats vegna eldgosa víðs vegar á Suðurlandi. Næstu þrjú ár leggur Ofanflóðasjóður 34 milljónir króna árlega í vinnuna, sem verður unnin af almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Veðurstofunni, Háskóla Íslands, Landlækni og fleiri aðilum.

Búið er að setja saman vinnuhópa vegna verkefnisins, en Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, segir málið það umfangsmikið að eiginleg vinna sé ekki hafin enn.

Áhersla verður lögð á hættumat á Reykjanesi, höfuðborgarsvæðinu, Vestmannaeyjum, byggð svæði norðan Vatnajökuls, Bárðarbungu og Öræfajökuls.

„Þetta eru nokkur svæði sem geta verið í bráðri hættu ef það fer að gjósa,“ segir Víðir.

Áætlunin gerir ráð fyrir að unnið verði að fjórum verkefnum á næstu þremur árum: úttekt á þekkingu á íslenskum eldstöðvum, forgreiningu á áhættu vegna flóða samfara eldgosum, forgreiningu á sprengigosum á Íslandi og forgreiningu á eldgosum sem valdið geta miklu eignatjóni, það er eldgosum nálægt þéttbýli og alþjóðlegum flugvöllum á Íslandi. Víðir segir ljóst að heildarkostnaður verkefnisins hlaupi á hundruðum milljóna króna.

Almannavarnir annast framkvæmd viðbragðsáætlanakerfis en kerfið byggir á hættumati hvers staðar og verður unnið í samvinnu við heimamenn.

„Við höfum lagt áherslu á nokkra staði þar sem menn telja hættuna meiri en annars staðar,“ segir Víðir. „Það eru mest fjöll undir jöklum og þar sem flóðahætta er. Við reiknum með að leggja fram fyrstu tillögur fyrir áramót.“

Hagsmunaaðilar innan samgöngu- og orkugeirans taka þátt í fjármögnun verkefnisins næstu þrjú ár, auk Ofanflóðasjóðs. Hinn 28. febrúar síðastliðinn samþykkti Alþingi breytingar á lögum um sjóðinn, sem gerir honum kleift að taka þátt í fjármögnun hættumats vegna íslenskra eldfjalla samhliða styrkjum til sveitarfélaga vegna framkvæmda við ofanflóðavarnir.

Undirbúningur fyrstu tveggja verkefnanna hófst síðastliðið haust og er hann vel á veg kominn.

Undirbúningur vegna vinnu við seinni verkefnin tvö mun hefjast í haust.

sunna@frettabladid.is

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×