Innlent

Helstu neyðarlyf verða alltaf til

Unnið er að því á vegum heilbrigðisyfirvalda að tryggja neyðarlyfjabirgðir í landinu. Vinnan er hluti af mótun lyfjastefnu stjórnvalda til ársins 2020. Listi hefur verið útbúinn yfir nokkra tugi lyfja sem aldrei mega klárast, þrátt fyrir að landið lokist vegna neyðarástands.

Flestir kannast við þann viðbúnað sem gripið var til árið 2009 vegna svínainflúensu. Þá voru tryggðar birgðir um allt land af nauðsynlegum vökvum og bóluefnum. Þess utan eru ákveðin lyf sem landsmenn geta ekki verið án ef allt lokast. Hefur insúlín verið nefnt sem dæmi.

Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu er tilurð vinnunnar sú að á undanförnum árum hafa komið upp dæmi sem vöktu menn til umhugsunar; svínaflensan, fuglaflensan og hrunið hafi ýtt undir mikilvægi þess að þessi mál séu öll örugglega í lagi.

Birgðahald mikils fjölda lyfja er kostnaðarsamt. Þess vegna hefur verið útbúinn sérstakur lágmarkslisti nauðsynlegra lyfja. Í reglugerð verður kveðið á um hvaða lyf þetta eiga að vera en um tugi lyfja er að ræða en ekki hundruð.

Gengið er út frá því að á hverjum tíma séu til þriggja mánaða birgðir hið minnsta af allra nauðsynlegustu lyfjunum.

Neyðarlyfjabirgðir eru hluti af almannavarnakerfi landsins. Því snýst vinnan við gerð lyfjaáætlunar í og með um að ákvarða hvar slíkar birgðir verða staðsettar.

Í dag eru lyfjabirgðir geymdar á einum stað en hins vegar er það skýrt skilgreint hvernig brugðist skal við ef neyð skapast, en dreifikerfi neyðarlyfja tengist 15 aðilum innan sóttvarnasvæðanna um allt land.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×