Innlent

Vilja brugga biskupabjóra

Hér eru þeir Bjarni Kristófer Kristjánsson og Broddi Reyr Hansen að skrafa yfir krúsum á barnum í Bjórsetrinu.
Hér eru þeir Bjarni Kristófer Kristjánsson og Broddi Reyr Hansen að skrafa yfir krúsum á barnum í Bjórsetrinu.
Árið 2007 var Bjórsetur Íslands sett á laggirnar á Hólum í Hjaltadal og síðan þá hefur starfsemi þess vaxið fiskur um hrygg. Nú er setrið komið með vínveitingaleyfi og bruggleyfi og oft er fjölmennt á vikulegum samkundum á barnum sem hefur verið komið fyrir í húsnæði sem áður var íbúð fjósamannsins á Hólum.

Bjórinn sem bruggaður er á Hólum kallast Vesturfari en Bjarni Kristófer Kristjánsson, formaður setursins, segir að nú íhugi menn að brugga eins konar biskupabjór. „Þá mætti til dæmis brugga hveitibjór og kalla hann Guðmund góða,“ segir hann kankvís. „Þá væri líka alveg borðleggjandi að brugga dökkan og ramman bjór sem kalla mætti Gottskálk grimma. Þá kom það líka til tals að brugga svona enskt öl sem er rautt og þá færi vel á því að kalla það Jón Arason því þessi bjór er yfirleitt hauslaus. En við skulum sjá, við bíðum eftir því að það komi nýr biskup á Hóla og athugum þá hvort þessi hugmynd hljóti blessun.“

Bjarni Kristófer segir að takmarkið með setrinu hafi fyrst og fremst verið að drekka góðan bjór en segir það afar skemmtilegt hvernig það hefur greitt fyrir samneyti bænda og fræðimanna á svæðinu. Í september verður svo slegið til mikillar bjórveislu en þá verður hið árlega Hólasumbl haldið með pompi og prakt. Svo það verður kannski einhver hamagangur á Hólum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×