Innlent

Ísland vitundarvakning um mikilvægi jökla og íss

Jökullinn verður lýstur upp í september 2013 undir tónlist Bergljótar Arnalds.
fréttablaðið/vilhelm
Jökullinn verður lýstur upp í september 2013 undir tónlist Bergljótar Arnalds. fréttablaðið/vilhelm
Íslenska verkefnið Vox Naturae var kynnt á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál, sem haldin er í Brasilíu. Verkefninu er ætlað að bregða ljósi á mikilvægi jökla og íss og þau áhrif sem hlýnun jarðar hefur.

Dr. Ania Grobicki, aðalritari samtakanna Global Water Partnership, en það eru stærstu alþjóðasamtök um sjálfbæra notkun á vatnsauðlindum jarðar, fjallaði um verkefnið. Hún sat í pallborði á fundi um mikilvægi fjallgarða fyrir hið græna hagkerfi, ásamt ráðherrum og forsvarsmönnum alþjóðastofnana.

Verkefnið Vox Naturae felst meðal annars í gjörningi við Svínafellsjökul, en í september 2013 verður jökullinn lýstur upp og tónlist Bergljótar Arnalds, sem byggir á hljóðum jökla, ljær jöklinum rödd. Þá verður hleypt af stokkunum alþjóðlegum verkefnum varðandi áhrif loftslagsbreytinga á jökla, ís og vatn.

Páll Ásgeir Davíðsson, framkvæmdastjóri Vox Naturae, segir mikilvægt að verkefnið hafi fengið þessa kynningu í Brasilíu. Hann segir vandamálið varðandi loftslagsbreytingar það að þær gerist svo hægt að erfitt sé að sjá þær.

„Skýrasta merkið sem náttúran sendir okkur er bráðnun íss og jökla. Ísinn er hitamælir jarðarinnar og við hér í norðri berum ákveðna ábyrgð. Með okkar sagnahefð og nálægð við jöklana getum við sýnt heiminum hvað er að gerast fyrr en nokkur annar.“

Dr. Grobicki sagði á fundinum að Ísland yrði vettvangur fyrir einstaka vitundarvakningu um vægi íss og jökla fyrir mannkynið allt.

- kóp



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×