Innlent

Langt í frá augljóst að Ólafur nái kjöri

Gunnar Helgi Kristinsson
Gunnar Helgi Kristinsson
„Þetta kemur mér ekki mikið á óvart og hann hefði getað eytt óvissunni fyrir löngu,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, um ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að gefa áfram kost á sér til embætti forseta Íslands.

Ólafur Ragnar sendi yfirlýsingu þess efnis frá sér í gær en áskildi sér hins vegar rétt til að hætta í embætti á miðju kjörtímabili þegar stöðugleiki hafi skapast í stjórnarfari og stjórnskipan landsins. Gunnar Helgi segir þetta afar óvenjulegt.

„Þetta er það óvenjulegt að ég á erfitt með að greina það en þetta virðist helst tengjast pólitískum markmiðum á borð við stjórnarskrána og fullveldið. Ólafur gefur það til kynna að þetta sé óvenjulegt framboð með pólitískt markmið.“

Gunnar Helgi segir erfitt að segja til um hvort margir eigi eftir að bjóða sig fram á móti Ólafi Ragnari þar sem hann hafi með þessu boðað pólitískari tíma á Bessastöðum. „Hinn hefðbundni forsetaframbjóðandi færi ekki fram gegn sitjandi forseta. Flestir forsetaframbjóðendur fara í framboð til þjóðhöfðingja og maður veit ekki hversu margir eru til í pólitíska baráttu á borð við þessa,“ segir Gunnar Helgi en hann telur hins vegar að það sé ekki augljóst að Ólafur Ragnar nái kjöri.

„Ég mundi segja að hann hafi tekið mikla áhættu og að það sé langt frá því augljóst að hann nái kjöri. Það fer hins vegar allt eftir hvað gerist á næstu vikum, hvernig mótframbjóðendur hann fær og hvernig hlutirnir halda áfram að þróast.“- áp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×