Innlent

Fyrrverandi þingmaður vill verja Hrafnabjargafoss

Kristján Már Unnarsson skrifar
Húsvíkingurinn Jón Ármann Héðinsson, fyrrverandi alþingismaður, hvetur til þess að Skjálfandafljót verði látið í friði. Hann segir að svokölluð Hrafnabjargavirkjun muni ekki aðeins hafa áhrif á Aldeyjarfoss heldur einnig á fagurt umhverfi Hrafnabjargafoss, sem fáir hafi séð.

Við greindum í gær frá umsóknum tveggja orkufyrirtækja um leyfi til rannsókna við ofanvert Skjálfandafljót til undirbúnings virkjun við Aldeyjarfoss sem kölluð er Hrafnabjargavirkjun.

Jón Ármann, sem sat á þingi fyrir Alþýðuflokkinn á annan áratug, er fæddur og uppalinn á Húsavík en ættaður úr Bárðardal. Hann hefur ljósmyndað Skjálfandafljót nánast frá efstu drögum og til sjávar og tók myndir sem birtust í frétt Stöðvar 2 af áhrifasvæði Hrafnabjargavirkjunar. Sérstaka athygli vill hann vekja á svæðinu við Hrafnabjargafoss, sem er ofan við Aldeyjarfoss.



„Þrjár systur" kallar Jón Ármann þennan hluta Hrafnabjargafoss.Mynd/Jón Ármann Héðinsson.
„Það er feikilega fallegt svæði," segir Jón Ármann og hvetur alla, sem tök hafa á og getu til að ganga, að skoða svæðið. Þangað sé um 1-2 kílómetra ganga frá veginum. Hann segir brotið í berginu þarna ótrúlega fallegt þar sem vatnið fossi fram af hálendinu.



Hrafnabjargafoss fellur niður í þröngt gljúfur.Mynd/Jón Ármann Héðinsson.
Goðafoss er kunnastur fossa Skjálfandafljóts en Jón Ármann hvetur til þess að vatnsafl í stórfljótum Þingeyinga verði látið í friði. Hann kveðst ekki vera á móti virkjunum en segist bjartsýnn á að næg orka fáist úr jarðhitanum.


Tengdar fréttir

Sækja bæði um rannsóknarleyfi við Aldeyjarfoss

Tvö stærstu orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur í samstarfi við Norðlendinga, bítast nú um rannsóknarleyfi vegna 90 megavatta virkjunar við Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti. Orkustofnun þarf að gera upp á milli þeirra þar sem aðeins einn aðili getur haft slíkt leyfi á hverjum tíma. Virkjun Skjálfandafljóts efst í Bárðardal er áratugagömul hugmynd, um tíma var hún kölluð Íshólsvatnsvirkjun en nú Hrafnabjargavirkjun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×