Enski boltinn

Liverpool þakklátt nágrannanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Liverpool birti í kvöld yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem grannliðinu Everton er þakkaður sá hlýhugur sem fórnarlömbum Hillsborough-slyssins var sýndur í kvöld.

Í síðustu viku var gerð opinber rannsóknarskýrsla um þennan örlagaríka dag á Hillsborough-vellinum þar sem 96 stuðningsmenn Liverpool létu lífið.

Everton ákvað af því tilefni að minnast fórnarlambanna sérstaklega fyrir leik liðsins gegn Newcastle í kvöld. Nöfn þeirra allra voru birt á risaskjá á meðan lag hljómsveitarinnar Hollies, „He Ain't Heavy, He's my Brother", hljómaði.

Tveir ungir stuðningsmenn félaganna leiddust út á völlinn - stúlka sem var klædd í Everton búning með númerinu 9 og Liverpool-drengur í treyju númer 6. Þá voru boltakrakkar í leiknum í treyjum merktum númerinu 96.

„Ég vil senda öllum starfsmönnum og stuðningsmönnum Everton mínar innilegustu þakkir fyrir þann stuðning sem þau sýndu fjölskyldum fórnarlambanna í kvöld," sagði Ian Ayre, framkvæmdarstjóri Liverpool.

„Þessi tvö félög hafa ávallt verið miklir erkifjendur í leik en utan vallarins styðjum við hvort annað. Everton var til staðar fyrir okkur eftir slysið á sínum tíma og svo aftur nú eftir að niðurstöður rannsóknarnefndarinnar voru birtar."

„Það er á stundum sem þessum sem fótboltaerjur gleymast. Þessi borg er einstök og ég held að stuðningsmenn beggja liða geta verið afar stolt af framferði sínu síðustu daga, vikur og þau ár sem liðin eru frá slysinu hörmulega."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×