Fótbolti

Margrét Lára: Vonast til að vera í byrjunarliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
mynd/óskaró
Margrét Lára Viðarsdóttir og félagar í íslenska kvennalandsliðinu verða í sviðsljósinu á morgun þegar liðið mætir Noregi á Ullevaal-leikvanginum í Osló en þetta er lokaleikur liðanna í undankeppni EM og hreinn úrslitaleikur um sæti í úrslitakeppninni sem fer fram í Svíþjóð næsta sumar.

Margrét Lára var fyrst ekki í hópnum hjá Sigurði Ragnari Eyjólfssyni vegna meiðsla en kom svo inn í hópinn í vikunni fyrir leikinn við Norður-Íra. Margrét Lára kom inn af bekknum á mótim Norður-Írum en vonast til þess að byrja annað kvöld.

„Staðan á mér er eins góð og hún getur verið. Ég er því bara klár í verkefnið á morgun og ég vonast til að vera í byrjunarliðinu. Við sjáum til hvað Siggi gerir í kvöld en ég vona vissulega að ég verð þess heiðurs aðhljótandi að fá að spila þennan mikilvæga leik," sagði Margrét Lára fyrir lokaæfingu liðsins í dag.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari mun tilkynna stelpunum byrjunarliðið sitt í kvöld en hann er hættur að gefa það út daginn fyrir leik og því kemur það ekki opinberlega í ljós fyrr en á morgun hvort Margrét Lára fái að byrja inn á.

Íslenska liðið hefur spilað marga mikilvæga leiki á síðustu árum og Margrét Lára segir að reynslan hjálpi til en að það þurfi miklu meira til.

„Við erum komnar með reynslu en hún fer ekkert alla leið með okkur á morgun. Við þurfum að spila vel, vera þéttar og spila okkar leik. Það er komin mikil tilhlökkun í hópinn og við getum ekki beðið eftir að leikurinn verði flautaður á," sagði Margrét Lára.

Íslenska liðið náði upp góðri einbeitingu fyrir leikinn á móti Norður-Írlandi og kláraði hann með öruggum og sannfærandi 2-0 sigri

„Við höfum lært af þeim mistökum að vera hugsa eitthvað lengra en næsta leik. Það er alltaf bara næsti leikur sem skiptir öllu máli og nú er keppnin bara að vera búin. Þetta er seinasti leikurinn og við höfum enga ástæðu til að vera að spara okkur á morgun," sagði Margrét Lára og bætti við:

„Við kláruðum leikinn við Norður-Írland vel og héldum líka markinu hreinu sem var mjög mikilvægt upp á þetta verkefni. Við tökum það sjálfstraust með okkur inn í þennan leik og vonandi náum við að gera okkur sjálfar stoltar á morgun og þjóðina með," sagði Margrét Lára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×