Fótbolti

Katrín: Veit um fólk sem ætlar að keyra í sjö tíma til að ná leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson í Osló skrifar
Katrín Jónsdóttir, landsliðsfyrirliði, lék sinn fyrsta leik í nokkra mánuði þegar hún leiddi íslenska liðið til sigurs á móti Norður-Írlandi á laugardaginn. Það var gott hljóð í Katrínu á blaðamannafundi í dag og hún er klár fyrir leik íslensku stelpnanna á móti Noregi á Ullevaal-leikvanginum í Osló á morgun. Þetta er lokaleikur liðanna í undankeppni EM og hreinn úrslitaleikur um sæti í úrslitakeppninni sem fer fram í Svíþjóð næsta sumar.

„Leikurinn gekk ágætlega og staðan á mér er bara fín," sagði Katrín sem var búin að vera að glíma við tognun í læri í tvo mánuði. Það skiptir miklu máli fyrir liðið að fá langleikjahæsta leikmanninn aftur inn. Framundan er úrslitaleikur á móti Noregi og í boði er sæti á EM í Svíþjóð 2013.

„Þær eru með gott lið og eru mjög skipulagðar. Þetta verður líkamlega krefjandi leikur og það lið mun vinna sem vill þetta meira," sagði Katrín. „Stríð er bara frábært orð," sagði Katrín aðspurð um áð hvernig Norðmenn skrifa um leikinn inn á heimasíðu norska sambandsins.

Katrín fagnar því að Norðmenn ætli að bjóða fólki ókeypis á völlinn og vonast til þess að sjá marga Íslendinga í stúkunni.

„Það er frábært að það sé frítt inn á völlinn því koma bara fleiri áhorfendur og það verður meira líf í kringum leikinn. Það er fullt af Íslendingum sem búa hér í Osló og í öllu Noregi. Við vitum um fólk sem ætlar að keyra sjö tíma til að koma og horfa á leikinn," sagði Katrín og bætti við:

„Við munum það bara þegar við vorum í Frakklandi fyrir síðustu undankeppni. Þá mættu hundrað Íslendingar og við heyrðum langmest í þeim," sagði Katrín á blaðamannafundinum og Þóra B. Helgadóttir skaut inn í.

„Hver Íslendingur sem mætir er á við tíu Norðmenn," sagði Þóra og það fer ekkert á milli mála að það er mikilvægt fyrir stelpurnar að heyra "Áfram Ísland" á Ullevaal-leikvanginum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×