Fótbolti

Dapurt gengi Íslendingaliðanna í Noregi

Ekkert annað en fall blasir við Veigari Páli og félögum
Ekkert annað en fall blasir við Veigari Páli og félögum
Það var fátt um fína drætti hjá Íslendingaliðunum í Noregi í dag. Aðeins Haugesund með Andrés Má Jóhannesson í byrjunarliðinu vann sigur en Steinþór Freyr Þorsteinsson, Óskar Örn Hauksson, Bjarni Ólafur Eiríksson, Elfar Freyr Helgason og Veigar Páll Gunnarsson voru allir í tapliðum.

Bjarni Ólafur, Elfar Freyr og Veigar Páll léku allir allan leikinn fyrir Stabæk sem tapaði 1-0 fyrir Tromsö.

Stabæk er lang neðst í norsku úrvalsdeildinni með 13 stig eftir 25 leiki og ljóst að fátt getur komið í veg fyrir að liðið falli þegar fimm umferðir eru eftir og liðið ellefu stigum frá öruggu sæti.

Andrés Már lék allan leikinn fyrir Haugesund sem sigraði Fredrikstad 1-0 með marki Geir Ludvig Fevang á 90. mínútu. Haugesund siglir lygnan sjó um miðbik deildarinnar.

Það vantaði ekki dramatíkin í leik Molde og Sandnes Ulf. Steinþór Freyr lék allan leikinn fyrir Sandnes en Óskar Örn aðeins fyrri hálfleikinn þegar Molde vann 3-2 sigur.

Molde var tveimur mörkum yfir í hálfleik en Sandnes virtist hafa náð stigi þegar liðið skoraði á 83. og 85. mínútu. Adam var ekki lengi í paradís því Vegard Forren tryggði Molde sigurinn mínútu eftir að Sandnes hafði jafnað metin.

Sandnes er því enn í næst neðsta sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Sogndal og Fredrikstad en Sandnes á leik til góða. Molde er á toppi deildarinnar, með þremur stigum meira en Stömsgodset.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×