Fótbolti

Blatter: Aldrei séð annað eins í minni tíð

Joseph Blatter hefur verið umdeildur í sinni forsetatíð hjá FIFA en hann lofaði mjög starf KSÍ í gær.
Joseph Blatter hefur verið umdeildur í sinni forsetatíð hjá FIFA en hann lofaði mjög starf KSÍ í gær. fréttablaðið/pjetur
Joseph Blatter, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins [FIFA], hefur verið staddur hér á landi síðustu daga til að kynna sér íslenska knattspyrnu og uppbyggingu íþróttarinnar hér á landi. Hann sat fyrir svörum á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum í gær þar sem hann lofaði mjög hvernig staðið hafi verið að knattspyrnunni hér á landi.

„Ég var uppnuminn af kynningu Sigurðar Ragnar Eyjólfssonar, fræðslustjóra KSÍ, um íslenska knattspyrnu," sagði hann. „Ég hef séð að það ríkir hér á landi mikill vilji og ákveðni í hinum ýmsu verkefnum sem nú eru í gangi."

Blatter sótti einnig æfingar hjá yngri flokkum HK og Breiðabliks og fannst mikið til koma. „Þar sá ég í verki þann metnað sem ríkir í starfinu. Í öllum flokkum eru menntaðir þjálfarar og er það afar mikilvægt. Þarna voru ung börn, allt niður í 3-5 ára gömul, að æfa með bolta á yfirbyggðum knattspyrnuvelli. Það fannst mér virkilega gaman að sjá."

Hann segir þetta ekki síður merkilegt í því ljósi hversu fámenn íslenska þjóðin er. „Ég hóf störf hjá FIFA fyrir 37 árum og þá í þróunarstarfi sambandsins. Á þessum tíma hef ég aldrei séð jafn gott og skilvirkt starf í jafn litlu landi. Mér fannst mikið til kynningar Sigurðar Ragnars koma," ítrekaði hann. „Ef starfið heldur áfram af sama metnaði þá leikur enginn vafi á því í mínum huga að það mun skila árangri íslenskrar knattspyrnu á alþjóðlegum vettvangi."

Hann minntist á leiki íslenska kvennalandsliðsins gegn Úkraínu í umspili um sæti í úrslitakeppni EM í Svíþjóð. „Ég óska þeim innilega góðs gengis. Ég myndi líka óska Úkraínu hins sama – en ég er núna staddur á Íslandi," sagði hann í léttum dúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×