Enski boltinn

Hazard: Er ekki að reyna að vera stjarna

Belginn ungi, Eden Hazard, hefur slegið í gegn hjá Chelsea í upphafi leiktíðar og lofar verulega góðu. Hann segist þó ekki vera að reyna að vera einhver stjarna heldur sé hann liðsmaður sem sé þó til í að stíga upp ef á þarf að halda.

Hazard er búinn að leggja upp fjögur mörk, fiska tvö víti og skora eitt mark í fyrstu leikjum tímabilsins.

"Ég elska að leggja upp mörk fyrir félaga mína. Ég er ekki hér til þess að vera einhver stjarna. Ég er hér til þess að spila fyrir aðra en ef ég fæ tækifæri til þess að vinna leiki þá mun ég að sjálfsögðu nýta það tækifæri," sagði Hazard.

Belginn er spenntur fyrir því að spila með Chelsea í Meistaradeildinni þar sem liðið á titil að verja.

"Það dreymir alla um Meistaradeildina. Þar skiptir hvert smáatriði máli. Ég fékk fína reynslu þar með Lille og vonast til að standa mig betur með liði sem allir vilja vinna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×