Fótbolti

McClean: Hagaði mér heimskulega á Twitter

Írski landsliðsmaðurinn James McClean hefur viðurkennt að uppþot hans á Twitter hafi verið heimskulegt. McClean var ekki í írska liðinu í fyrsta leiknum í undankeppni HM og lét reiði sína í ljós á Twitter.

Landsliðsþjálfarinn aldni en harði, Giovanni Trapattoni, tók drenginn á teppið í kjölfarið og sagði hann heppinn að hafa ekki verið rekinn heim.

Það gerði hann fyrir framan allan hópinn og McClean baðst í kjölfarið afsökunar.

"Ég get hlegið að þessu núna og við strákarnir höfum verið að hlæja að þessu. Mesti heiður sem manni hlotnast er að spila fyrir landsliðið og þetta var því heimskulegt af mér," sagði McClean.

"Ég var hálfvíti að haga mér svona en þetta er búið og afgreitt núna. Ég lærði af þessu."

McClean kom inn á sem varamaður í leik Íra á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×