Fótbolti

Oxlade-Chamberlain: Pabbi er búinn að vera að pressa á mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Oxlade-Chamberlain.
Alex Oxlade-Chamberlain. Mynd/Nordic Photos/Getty
Alex Oxlade-Chamberlain skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark í gær þegar Englendingar unnu 5-0 stórsigur á San Marínó. Hann varð þar með fjórði yngsti markaskorarinn í sögu enska landsliðsins og lék eftir afrek föður síns sem skoraði einnig fyrir landsliðið á sínum tíma.

Mark Chamberlain, faðir Alex Oxlade-Chamberlain, skoraði í sigri á Lúxemborg 15. desember 1982 þegar hann var 21 árs gamall og þeir hafa nú báðir skorað 1 mark í 8 landsleikjum. Oxlade-Chamberlain mun þó væntanlega bæta við sína tölfræði enda á þessi 19 ára strákur framtíðina fyrir sér.

„Það er léttir að ná loksins þessu marki. Ég hef verið að bíða eftir fyrsta markinu mínu fyrir enska landsliðið og pabbi er búinn að vera að pressa á mig. Hann hefur sagt við mig að ég yrði að ná að brjóta ísinn og ná þessu marki," sagði Alex Oxlade-Chamberlain við Sky Sports eftir leikinn.

Oxlade-Chamberlain átti góða tilraun í fyrri hálfleiknum en markið kom ekki fyrr en í seinni hálfleiknum. „Ég notaði hvert tækifæri til að láta vaða á markið en það skilað sér ekki í fyrri hálfleik. Sem betur fer fór hann inn í seinni hálfleik," sagði Oxlade-Chamberlain.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×