Fótbolti

Danir kvarta við FIFA undan kynþáttafordómum í Búlgaríu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Mtiliga í baráttu við Valeri Bozinov í leiknum í gær.
Patrick Mtiliga í baráttu við Valeri Bozinov í leiknum í gær. Mynd/AP
Danir eru mjög ósáttir með þær móttökur sem varnarmaðurinn Patrick Mtliga frá búlgörskum áhorfendum í 1-1 jafntefli Búlgaríu og Danmerkur í undankeppni HM en leikurinn fór fram í Sofíu í gær. Danir ætlast til þess að málið fari inn á borð hjá FIFA.

Búlgörsku áhorfendurnir sungu níðsöngva og beindu þeim að hinum 31 árs gamla Patrick Mtliga sem var að spila sinn sjötta landsleik fyrir Dani.

„Við sættum okkur ekki við kynþáttaníðsöngva gagnvart okkar leikmönnum," sagði Lars Berendt talsmaður danska sambandsins í sjónvarpsviðtali í Búlgaríu.

„Dómarar leiksins og eftirlitsmaður vita af þessum níðsöngvum og við búumst við því að FIFA taki á þessu máli," bætti Berendt við.

Mtliga kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik og það fór ekki framhjá neinum þegar stuðningsmenn búlgarska liðsins fóru að herma eftir öpum í stúkunni.

Búlgarska sambandið fékk nýverið 40 þúsund evra sekt frá UEFA vegna kynþáttaníðsöngva stuðningsmanna sinna í leik á móti Englendingum í september 2011. Það er hætt við því að þessi sekt verði enn hærri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×