Steinþór Freyr Þorsteinsson var valinn leikmaður ársins hjá norska úrvalsdeildarliðinu Sandnes Ulf af lesendum Sandnespostens en hann hefur spilað frábærlega með nýliðunum á þessu tímabili.
Steinþór Freyr er búinn að skora sex mörk og leggja upp önnur tólf á tímabilinu en hann hefur fiskað ófá vítin fyrir Sandnes Ulf á þessari leiktíð.
Þetta er annað árið í röð sem Steinþór fær þessi verðlaun hjá blaðinu en hann hjálpaði liðinu að komast upp í norsku úrvalsdeildina í fyrra. Hann hefur því verið kosinn bestur á tveimur fyrstu tímabilum sínum með Sandnes Ulf.
Sandnes Ulf er að berjast fyrir lífi sínu í norsku úrvalsdeildinni og vann mikilvægan 2-1 sigur á Strömsgodset í næst síðustu umferðinni í gær. Sandnes mætir Aalesund á útivelli í lokaumferðinni.
Steinþór valinn leikmaður ársins
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
