Enski boltinn

Ferguson: Rooney var ekki í formi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney kom inn á sem varamaður í síðasta United-leik en þurfti að fara meiddur af velli.
Wayne Rooney kom inn á sem varamaður í síðasta United-leik en þurfti að fara meiddur af velli. Mynd/Nordic Photos/Getty
Wayne Rooney var ekki í byrjunarliði Manchester United um síðustu helgi og strax fóru sögusagnir af stað um að hann væri á förum frá félaginu. Rooney hefur sagt allt slíkt tal vera tóma þvælu en kappinn verður frá næstu vikur eftir að hafa fengið slæman skurð á lærið í leiknum við Fulham.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur útskýrt af hverju enski landsliðsmaðurinn var á bekknum í umræddum leik.

„Rooney var ekki í formi og það hefur Wayne talað um sjálfur. Hann þurfti á fleiri leikjum að halda. Ég vildi spila Robin van Persie á Old Trafford og þar sem að ég vissi að hann væri heldur ekki í hundrað prósent formi þá gat ég ekki byrjað með þá báða," sagði Sir Alex Ferguson.

„Wayne er aðeins á eftir hinum leikmönnum liðsins í formi. Það var samt ekki auðvelt ákvörðun að velja ekki góðan leikmann í liðið, mann sem getur skorað mörk," sagði Ferguson.

„Rooney er ekki til sölu og það hefur aldrei verið til umræðu. Hann er með langtímasamning við félagið og er stór hluti af okkar framtíðarplönum. Hann var mjög reiður þegar hann heyrði þessar fréttir," sagði David Gill, framkvæmdastjóri Manchester United um málið.

Wayne Rooney verður ekki með Manchester United á móti Southampton á morgun en United-liðið verður einnig án manna eins og Ashley Young, Rio Ferdinand, Phil Jones og Chris Smalling sem eru allir á meiðslalistanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×