Matthías Vilhjálmsson skoraði eitt marka Start í 3-0 sigri á Bryne í norsku B-deildinni í dag. Með sigrinum náði Start níu stiga forystu á toppi deildarinnar.
Matthías skoraði þriðja mark leiksins á 72. mínútu en þetta var hans sextánda mark á tímabilinu og er hann langmarkahæsti leikmaður deildarinnar. Næstu menn eru með tólf mörk.
Guðmundur Kristjánsson spilaði ekki með Start í dag þar sem hann tók út leikbann.
Start er með 54 stig eftir 24 leiki. Mjöndalen er í öðru sæti með 45 stig og á einn leik til góða. Þar á eftir kemur Sarpsborg með 44 stig og á liðið tvo leiki til góða á Start.
